Körfubolti

Strákarnir töpuðu með 18 stigum í Svartfjallalandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson skoraði 19 stig í kvöld.
Hlynur Bæringsson skoraði 19 stig í kvöld. Mynd/Stefán
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta átti aldrei möguleika á móti sterku liði Svartfellinga í Niksic í undankeppni Evrópumótsins í kvöld. Svartfellingar unnu leikinn á endanum með 18 stigum, 85-67 eftir að hafa komist mest 25 stigum yfir í fyrri hálfleiknum. Íslenska liðið hefur þar með tapað tveimur leikjum í röð og þremur af fyrstu fjórum leikjum sínum í riðlinum.

Sundsvall-mennirnir Hlynur Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson voru atkvæðamestir í íslenska liðinu, Hlynur með 19 stig og Jakob með 15 stig. Haukur Helgi Pálsson og Jón Arnór Stefánsson skoruðu báðir 13 stig.

Svartfellingarnir byrjuðu leikinn af krafti, skoruðu sjö fyrstu stigin og voru komnir í 21-9 eftir aðeins fimm mínútur. Svartfjallaland var síðan 26-15 yfir eftir fyrsta leikhlutann og Jón Arnór Stefánsson var ekki enn kominn á blað.

Svartfellingar skoruðu þrettán fyrstu stig annars leikhlutans og voru þar með komnir í 39-15 og útliðið ansi svart hjá íslensku strákunum. Íslenska liðið náði aðeins að laga stöðuna fyrir hálfleik með því að vinna síðustu 90 sekúndurnar 7-2. Svartfjallaland var því 48-32 yfir í hálfleik.

Hlynur Bæringsson var með 10 stig í fyrri hálfleiknum og Jakob Örn Sigurðarson og Jón Arnór Stefánsson skoruðu báðir sex stig. Jón Arnór skoraði öll sín stig í hálfleiknum á síðustu fimm mínútum hans.

Strákarnir byrjuðu seinni hálfleikinn á öðrum góðum spretti og náðu að minnka muninn í ellefu stig, 39-50, með því að skora 7 af fyrstu 9 stigum seinni hálfleiksins. Íslenska liðið vann þriðja leikhlutann á endanum 13-12 og Svartfellingar voru því fimmtán stigum yfir, 60-45, fyrir lokaleikhlutann.

Svartfellingar gáfu þá aftur í, skoruðu tíu af fyrstu ellefu stigum fjórða leikhlutans og komust í 70-46. Íslenska liðið náði að laga stöðuna á lokamínútunum en á endanum munaði 18 stigum á liðunum, 85-67.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×