Körfubolti

Hlynur lofar því að troða í upphituninni

„Já og já," sagði Hlynur Bæringsson landsliðsmaður í körfuknattleik þegar hann var inntur eftir því hvort leikmenn liðsins væri klárir í slaginn gegn Ísrael og hvort Ísland gæti unnið þá í Laugardalshöllinni í kvöld. Liðin eigast við í undankeppni Evrópumótsins en Ísland er með einn sigur eftir tvær umferðir en Ísrael hefur tapað báðum viðureignum sínum í riðlinum.

„Við getum unnið þá en þetta er mjög stórt verkefni fyrir okkur. Við höfum ekki mikinn tíma á milli leikja til þess að liggja yfir myndböndum af leikjum Ísraels en þeir eru með sterkt lið. Þar má nefna Omri Casspi hefur leikið með Sacramento og Cleveland í NBA. Það eru margir þeirra að spila með Maccabi Tel Aviv í Ísrael sem er eitt af sterkustu körfuboltaliðum Evrópu. Þeir eru með mikla körfuboltahefð og mjög gott lið. Við erum ekki hátt skrifaðir í Evrópu enda höfum við ekki verið með stórkeppni á undanförnum árum," sagði Hlynur.

Hann ætlar ekki að lofa því að hann muni troða boltanum í körfuna líkt og hann gerði gegn Slóvakíu s.l. laugardag. „Ég verð alltaf að geta staðið við loforðin og ég get ekki lofað því, en ég mun reyna ef ég á séns. Allavega í upphituninni," sagði Hlynur Bæringsson.

Leikurinn hefst kl. 19.15 og fer hann fram í Laugardalshöll.

Staðan í riðlinum eftir tvær umferðir er þessi, gefin eru 2 stig fyrir sigur og 1 fyrir tap:

1. Eistland 4 stig

2. Svartfjallaland 4 stig

3. Serbía 3 stig

4. Ísland 3 stig

5. Ísrael 2 stig

6. Slóvakía 2 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×