Körfubolti

Ægir Þór ætlar að nýta hraða sinn gegn Ísrael

Ægir Þór Steinarsson leikstjórnandi íslenska landsliðsins í körfuknattleik fær eflaust stórt hlutverk í kvöld þegar Ísland tekur á móti Ísrael í undankeppni Evrópumótsins í Laugardalshöll. Ægir fékk óvænt tækifæri í byrjunarliðinu í 81-75 sigri Íslands gegn Slóvakíu á útivelli s.l. laugardag eftir að Pavel Ermolinskij meiddist í upphitun. Pavel verður ekki með í kvöld og það er ljóst að það mun mikið mæða á Ægi.

„Ég fékk að vita það rétt áður en leikurinn hófst að ég myndi byrja inná gegn Slóvakíu. Ég reyni bara að nýta hraðann og minn styrkleika gegn þeirra veikleika. Það hefur alltaf verið þannig. Ég mun nýta hraðann og leika menn uppi," sagði Ægir í gær en Ísland er með einn sigur og eitt tap eftir fyrstu tvo leikina. Ísrael hefur hinsvegar tapað báðum leikjum sínum í keppninni og tveggja stiga sigur Eistlendinga í Ísrael um s.l. helgi kom flestum á óvart.

Leikurinn hefst kl. 19.15 og fer hann fram í Laugardalshöll.

Staðan í riðlinum eftir tvær umferðir er þessi, gefin eru 2 stig fyrir sigur og 1 fyrir tap:

1. Eistland 4 stig

2. Svartfjallaland 4 stig

3. Serbía 3 stig

4. Ísland 3 stig

5. Ísrael 2 stig

6. Slóvakía 2 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×