Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: HK - Valur 29-23

Kolbeinn Tumi Daðason í Digranesi skrifar
HK vann öruggan sigur á Valsmönnum 29-23 í viðureign liðanna sem spáð er neðstu tveimur sætum deildarinnar. Eftir hnífjafnan fyrri hálfleik var aðeins eitt lið á vellinum í þeim síðari og sigur heimamanna sanngjarn.

Fyrri hálfleikur í Digranesinu var fínasta skemmtun. HK, sem spáð er neðsta sæti og þar með falli úr deildinni, hafði frumkvæðið framan af leik. Nokkuð var um misheppnaðar sendingar í sóknarleikjum beggja liða en spilamennskan batnaði eftir því sem á hálfleikinn leið.

Arnór Freyr Stefánsson varði eins og berserkur framan af í marki heimamanna og HK hafði yfir 10-7. Þá fóru dómarar leiksins að reka af velli og voru HK-ingar um tíma tveimur mönnum færri. Það nýttu gestirnir sér, jöfnuðu og allt í járnum í hálfleik 13-13.

Þeir sem vonuðust eftir spennandi síðari hálfleik varð ekki að ósk sinni. Gestirnir skoruðu aðeins eitt mark fyrstu fjórtán mínútur hálfleiksins á meðan heimamenn gengu á lagið. Patrekur Jóhannesson, þjálfari gestanna, tók bæði leikhléin sem hans lið átti inni á þessum tíma en það hjálpaði lítið.

Seinni hluta hálfleiksins spiluðu Valsmenn með alla sjö leikmenn sína í sókninni. Þeir fundu vissulega leiðina í mark HK-inga en það dugði ekki til. HK-ingar héldu forskoti sínu allt til loka og voru síðustu tíu mínútur leiksins formsatriði fyrir Íslandsmeistarana.

Arnór Freyr Stefánsson átti flottan leik í marki HK og var stöðugur frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu auk þess að skora mark yfir endilegan völlinn. Bjarki Már og Vilhelm Gauti spiluðu einnig vel og í raun allir HK-ingar fyrir utan Ólaf Víði Ólafsson sem fékk sér sæti á bekknum eftir skelfilegar upphafsmínútur.

Patrekur Jóhanneson, þjálfari Vals, hefur um nóg að hugsa eftir síðari hálfleikinn. Þorgrímur Smári var í raun eini leikmaður liðsins sem mætti til leiks í síðari hálfleik. Þá er áhyggjuefni fyrir gestina að Adam Seferovic, króatískur leikmaður liðsins, haltraði af velli í fyrri hálfleik.

Bjarki Már Elísson: Ætlum að sýna að spáin hafi verið tóm steypa„Þetta var virkilega gott. Þetta var jafnt framan af en síðan skellir Arnór í lás í markinu, við spilum þétta vörn og þá kom þetta,“ sagði hornamaðurinn Bjarki Már Elísson sem átti fínan leik í liði heimamanna.

„Menn eru að stíga upp í skyttunni, Eyþór, Garðar og Atli. Þetta var snilld,“ sagði Bjarki Már ánægður með liðsfélaga sína.

HK-ingum var spáð falli eins og alþjóð veit.

„Við ætlum að sýna að þetta hafi verið tóm steypta. Það er samt ástæða fyrir því að okkur er spáð þarna niðri. Við ætlum að sýna að við eigum heima í þessari deild og þessi mannskapur sem var að spila hérna í dag er ekkert lakari en þeir sem voru í fyrra,“ sagði Bjarki Már.

Það vakti athygli að leikmenn beggja liða þurftu að bíða í nokkrar mínútur eftir því að síðari hálfleikurinn hæfist. Í vetur verða leikhléin fimmtán mínútur en aðeins dómararnir virtust meðvitaðir um þá staðreynd. Leikmönnum hundleiddist inni á vellinum og vissu ekkert hvað þeir áttu að gera.

„Arnar og Svavar eru þekktir fyrir að fara eftir reglunum. Þeir bregða ekkert útaf í þeim efnum. Þeir komu inná eftir fjórtán mínútur og byrjuðu leikinn mínútu síðar,“ sagði Bjarki Már sem er enginn aðdáandi lengra leikhlés.

„Mér finnst tíu mínútur nóg en ég veit ekki með áhorfendur. Ég var farinn að kólna niður en þetta var fínt í dag samt,“ sagði Bjarki Már

Patrekur: Þarf meiri útgeislun eins og þeir segja í Idol-inuPatrekur Jóhannesson, þjálfari Valsmanna, lét fjölmiðlamenn bíða lengi eftir sér. Hann baðst þó afsökunar á því en ljóst að hann var svekktur með frammistöðu liðs síns sem sá ekki til sólar í síðari hálfleik.

„Ég var þannig séð óánægður með fyrri hálfleikinn líka. Við áttum að vera yfir eftir hann. Ég var ósáttur við svo margt í okkar leik í dag. Bæði varnarleikinn og sóknarleikinn. Ég átti von á hungraðra liði,“ sagði Patrekur.

Leikmenn Vals voru á tíðum sjálfum sér verstir. Þau skipti sem leikmenn liðsins köstuðu boltanum frá sér í hraðaupphlaupi voru ófá og leikmenn virkuðu taugaveiklaðir.

„Valur hefur verið í 6. sæti síðustu tvö ár og missti fimm úr byrjunarliðinu. Það koma nýir menn inn og ég hef mikla trú á þeim. Það hefur kannski verið eitthvað stress eða óöryggi. Strákarnir hafa sýnt það á undirbúningstímabilinu að þeir geta kastað á milli en kannski þurfum við meiri tíma. Þetta er þannig séð glænýtt lið,“ sagði Patrekur.

Eftir að Valsmenn höfðu aðeins skorað eitt mark fyrstu fimmtán mínútur síðari hálfleiks brá Patekur á það ráð að taka markmanninn útaf og spila manni fleiri í sókn. Slíkt er sjaldséð sjón í íslenskum handbolta en Dagur Sigurðsson hefur þó gert þetta með lið sín, t.d. í Meistaradeildinni með Fusche Berlín í vetur með góðum árangri.

Patrekur og Dagur eiga það sameiginlegt að hafa báðir þjálfað austurríska landsliðið.

„Ég myndi ekki segja að þetta væri austurrískt. Ég hef séð þetta í norska boltanum, danska og þýska. Þetta er bara möguleiki eins og sást í dag. Við skoruðum eitt mark á fimmtán mínútum sex gegn sex svo við urðum að finna einhverja lausn,“ sagði Patrekur.

Sú langa stund sem Patrekur átti með leikmönnum sínum að leik loknum vakti spurningu hvort Hlíðarendapiltar hefðu fengið hinn margfræga hárblásara.

„Alls ekki. Ég er með miklar kröfur til sjálfs mín og strákanna líka. Þegar þú spilar handbolta þarftu að gefa hjartað og allt í það. Ég held að menn hafi ekki gefið allt í þetta í dag. Auðvitað er þetta einn leikur, kannski krefst ég of mikils af nýju liði en ég vil að menn sýni meiri „útgeislun“ inni á vellinum eins og þeir segja í Idol-inu. svo það sé meira líf í þessu.“

Um meiðsli Króatans Adam Seferovic sagði Patrekur að hann hefði slasað sig á ökkla en vissi ekki nánari deili á meiðslum hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×