Handbolti

Karabatic tjáir sig um veðmálasvindlið

Besti handknattleiksmaður heims, Frakkinn Nikola Karabatic, tjáði sig í fyrsta skipti í gær um veðmálasvindlið sem hann er bendlaður við í heimalandinu. Það gerði franski landsliðsmaðurinn á Facebook-síðu sinni.

Þar segist Karabatic ekki hafa veðjað á lokaleik síðasta tímabils sem lið hans, Montpellier, tapaði óvænt gegn neðsta liði deildarinnar. Hann segir að kærasta sín hafi aftur á móti veðjað á leikinn og hafi þess utan sagt honum frá því.

Hún veðjaði gegn liði kærastans. Að sögn Karabatic gerði hún það þar sem hún þekkti stöðuna. Montpellier var orðið meistari og fimm leikmenn vantaði í liðið í leiknum.

Karabatic harðneitar að hafa reynt að tapa leiknum og segist ekki eiga orð yfir fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga.

Bróðir Nikola, Luka, spilar með sama liði og er einnig sakaður um svindl. Kærastan hans hefur viðurkennt að hafa veðjað á leikinn. Hún notaði peninga frá Luka til þess að veðja á leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×