Handbolti

Fimmtu Ólympíuleikarnir hjá Guðmundi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. Mynd/Vilhelm
Strákarnir okkar eru komnir inn á Ólympíuleikana í London eftir að þeir náðu öðru sætinu í sínum riðli í forkeppninni sem fram fór í Króatíu um páskana. Íslenska liðið tryggði sér farseðilinn með sannfærandi sigrum á Síle og Japan í tveimur fyrstu leikjum sínum. Tap í lokaleiknum á móti Króatíu skipti ekki máli því Guðmundur Guðmundsson var búinn að koma íslenska liðinu inn á þriðju Ólympíuleikana í röð.

„Ég er afskaplega ánægður og stoltur. Við erum að spila fyrir hönd þjóðarinnar og erum ánægðir að hafa náð þessum stóra áfanga," sagði Guðmundur við Guðjón Guðmundsson eftir að Ól-sætið var í höfn á laugardaginn.

„Það eru ekki allir sem átta sig á því hversu stór áfangi það er að koma sér inn á Ólympíuleikana. Við erum búnir að tryggja okkur núna inn á leikana í þriðja skiptið í röð og er það frábært. Á leikunum eru öll bestu lið heims og er það heiður að taka þátt í þeim. Íslendingar verða að átta sig á því að þeir eiga frábært handboltalandslið og verðum við að styðja vel við bakið á því," sagði Guðmundur í þessu símaviðtali við Stöð 2 Sport eftir sigurinn á Japan.

Guðmundur þekkir það vel að taka þátt í handboltakeppni Ólympíuleikana því hann var leikmaður á leikunum í Los Angeles 1984 og í Seúl 1988 og hefur síðan verið þjálfari liðsins á undanförnum tveimur leikum í Aþenu 2004 og Peking 2008.

Fimm leikmenn íslenska liðsins eru væntanlega á leið á sína þriðju leika en það eru þeir Ólafur Stefánsson, Guðjón Valur Sigurðsson, Snorri Steinn Guðjónsson, Róbert Gunnarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson. Þeir munu jafna með því met Jakobs Sigurðssonar sem var með á ÓL 1984, ÓL 1988 og ÓL 1992.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×