Tónlist

Einvalalið fylgir Bryan Ferry

Bryan Ferry stígur á svið á tvennum tónleikum í Hörpu í lok maí.
Bryan Ferry stígur á svið á tvennum tónleikum í Hörpu í lok maí.
Tónlistarmaðurinn Bryan Ferry verður með einvalalið með sér á tónleikunum sem hann heldur í Hörpu 27. og 28. maí.

Þrettán manns verða með honum á sviðinu, þar á meðal öflugur danshópur, trommarinn Paul Thompson úr Roxy Music, gömlu hljómsveitinni hans Ferry, Paul Turner, bassaleikari Jamiroquai, og Chris Spedding sem er einn þekktasti hljóðversgítarleikari Bretlands. Hann hefur spilað með Paul McCartney, Roxy Music, Tom Waits og Katie Melua, auk þess sem hann spilaði inn á plötu Stuðmanna, Sumar á Sýrlandi.

Alls telur hópurinn sem kemur með Ferry til landsins um þrjátíu manns. Þar verða einnig tæknimenn og sonur hans, Isaac Ferry. Umboðsmaður söngvarans og tónleikabókari koma einnig til Íslands en mjög sjaldgæft er að þeir ferðist með honum á tónleika.

Óskalisti Ferrys baksviðs er lágstemmdur. Hann hefur beðið um að nuddarar verði til taks, auk þess sem hann vill kampavín af gerðinni Dom Perignon. Evian-vatn er einnig á listanum en hið tæra íslenska vatn verður líklega frekar fyrir valinu.

Þetta verða fyrstu tónleikar Bryans Ferry á þessu ári og þeir fyrstu síðan hann lauk Olympia-tónleikaferð sinni í London í desember í fyrra. Hún samanstóð af fimmtíu tónleikum og var uppselt á þá alla. Það er einmitt uppselt á fyrri tónleikana í Hörpu en enn eru til miðar á þá síðari á Midi.is. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×