Handbolti

Birna: Hugsaði um EM í leiðinlegu æfingunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birna Berg Haraldsdóttir
Birna Berg Haraldsdóttir
Tvær landsliðskonur, landsliðsfyrirliðinn Rakel Dögg Bragadóttir og örvhenta skyttan Birna Berg Haraldsdóttir, urðu fyrir því óláni að slíta krossband á síðasta tímabili en þær eru báðar í góðum gír og hafa sett stefnuna á EM í Serbíu í desember. Birna Berg sleit krossband í janúar síðastliðnum en vonast til þess að vera í hópnum í fyrsta leik Fram á tímabilinu.

„Þetta gengur bara ótrúlega vel. Ég fæ vonandi að spila með á æfingu í dag og stefnan er sett á það að vera í hóp í fyrsta leik og fá kannski að spila í svona fimm til tíu mínútur," sagði Birna Berg Haraldsdóttir þegar Fréttablaðið heyrði í henni í gær.

„Ef ég verð nógu góð handboltalega séð þá auðvitað stefni ég á það að komast á EM," segir Birna og staðan á hnénu er góð.

„Ég er alltaf verkjalaus og mér finnst ég ekki vera að stíga upp úr meiðslum. Nú þarf ég bara að fara að komast í spilaform," segir Birna Berg en hún var í hópnum sem fór á HM í Brasilíu fyrir ári.

Birna Berg meiddist í stórleik Fram og Vals 14. janúar síðastliðinn og missti því af öllum stóru leikjum tímabilsins.

„Það var mjög erfitt að horfa á stelpurnar síðasta vor. Ég hafði bara svo mikla trú á þeim og það var svo svekkjandi að geta ekki gert neitt og þurfa bara að sitja upp í stúku," segir Birna Berg. Hún hefur gert allt sem í hennar valdi stendur til að snúa sem fyrst inn á handboltavöllinn.

„Ég er búin að æfa sex daga vikunnar síðan í febrúar og EM í Serbíu hefur haldið mér gangandi alla endurhæfinguna. Það er svo auðvelt að mæta á æfingu þegar maður hefur eitthvað að stefna að. Það var auðvelt að hugsa um EM í Serbíu þegar maður var að gera eitthvað hundleiðinlegt," sagði Birna Berg og nú sér hún fyrir endanum á leiðindunum.

„Eins og sjúkraþjálfarinn segir við mig þá er ótrúlega lítið eftir af endurhæfingunni. Nú þarf ég bara að taka seinustu skrefin," segir Birna Berg. Það var ekki bara handboltinn sem missti sterkan leikmann því Birna var einnig aðalmarkvörður ÍBV í Pepsi-deild kvenna.

„Ég er ekki alveg búin að ákveða mig. Ég horfði á eitt heilt fótboltasumar og ég verð að viðurkenna að mig langaði alveg að vera með. Það var erfitt að horfa á það líka. Ég fer kannski eitthvað að leika mér í fótboltanum næsta sumar en ég er ekki búin að spila minn síðasta fótboltaleik. Nú er handboltinn samt í fyrsta sæti," sagði Birna að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×