Körfubolti

NBA: Spurs rústaði Heat og leiðir einvígið 2-1

Stefán Árni Pálsson skrifar

San Antonio Spurs kjöldró Miami Heat, 113-77, í þriðja leik liðanna í úrslitum NBA-deildarinnar. Staðan í einvíginu er nú 2-1 fyrir San Antonio Spurs.

Það gekk allt upp hjá heimamönnum í leiknum á sama tíma og ekkert vildi detta fyrir Miami Heat.

Leikmenn San Antonio voru magnaðir í leiknum og settu meðal annars met í úrslitum deildarinnar en liðið setti niður 16 þriggja stiga körfur í leiknum.

Leikmenn Miami Heat vilja sennilega gleyma þessum leik sem allra fyrst og byrja strax að undirbúa sig fyrir þann næsta sem fer fram á aðfaranótt föstudags í San Antonio.

Sigur Spurs er þriðji stærsti sigur liðs í sögu úrslitanna í deildinni. Heimamenn unnu lokaleikhlutann 35-14 og segir það mikið um gang leiksins í síðari hálfleiknum. Liðið vann að lokum 36 stiga sigur á Miami Heat.

Dwyane Wade var atkvæðamestur í liði Heat með 16 stig en Lebron James gerði 15. Hjá San Antonio Spurs var það Danny Green sem var með 27 stig og Gary Neal gerði 24 stig, en báðir skoruðu þeir sín stig mikið til úr þriggja stiga skotum.

Staðan í einvíginu er því 2-1 fyrir Spurs en fjóra sigra þarf til að verða NBA-meistari.

Hér að ofan má sjá þær þriggja stiga körfur sem Spurs setti niður í leiknum, alveg með ólíkindum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×