Handbolti

Skytturnar þrjár saman á ný

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Elísabet og Rakel ánægðar með samninginn.
Elísabet og Rakel ánægðar með samninginn. Mynd/Fésbókarsíða Rakelar Daggar
„Þetta er algjör draumur. Bæði Jóna og Lísa eru ekki bara bestu vinkonur mínar heldur líka frábærir samherjar," segir Rakel Dögg Bragadóttir.

Elísabet Gunnarsdóttir, Jóna Margrét Ragnarsdóttir og Rakel Dögg skrifuðu í dag undir samning við meistaraflokk kvenna hjá Stjörnunni. Þær stöllur spiluðu saman í yngri flokkum Stjörnunnar og eru miklar vinkonur.

Jóna Margrét og Rakel léku með liðinu á síðustu leiktíð en Elísabet er komin aftur í Garðabæinn eftir tveggja ára veru hjá Fram. Fram lagði einmitt Stjörnuna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í vor.

„Við erum komnar með fínt lið og nú er bara að æfa vel og vera klárar fyrir næsta tímabil. Kvennalið Stjörnunnar hefur alltaf verið ofarlega og vill vera í titlabaráttu," segir Rakel um markmið tímabilsins.

Lið Stjörnunnar er við æfingar sem stendur en tekur sér frí síðar í júlí fram yfir Verslunarmannahelgi. „Svo æfum við á fullu eftir Verslunarmannahelgi," segir Rakel.


Tengdar fréttir

Stórvinkonur í Stjörnunni

Línumaðurinn Elísabet Gunnarsdóttir mun í dag skrifa undir samning við uppeldisfélag sitt, Stjörnuna í Garðabæ. Þetta hefur Fréttablaðið eftir áreiðanlegum heimildum. Elísabet varð Íslandsmeistari með Fram í vetur en heldur nú á heimaslóðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×