Handbolti

Stella nýr fyrirliði landsliðsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stella Sigurðardóttir.
Stella Sigurðardóttir. Mynd/Haraldur
Stella Sigurðardóttir verður fyrirliði kvennalandsliðs Íslands í handknattleik í leikjunum gegn Finnum og Slóvökum í undankeppni HM.

Hrafnhildur Skúladóttir var ekki valin í hópinn að þessu sinni og Rakel Dögg Bragadóttir hefur glímt við meiðsli undanfarnar vikur og ekki getað beitt sér að fullu.

Ágúst Jóhannssson, þjálfari landsliðsins, sagði á blaðamannafundi liðsins í dag að Stella yrði með bandið í leikjunum tveimur. Hann var ekki tilbúinn að upplýsa hvort Stella yrði áfram fyrirliði í framhaldinu eða ekki. Hann væri ekki búinn að hugsa málið svo langt fram í tímann.

Stella sagði í samtali við Vísi að Ágúst hefði fyrir þó nokkru síðan búið hana undir að vera í fyrirliðahlutverki hjá landsliðinu í framtíðinni. Hún hefði þó ekkert endilega átt von á því strax. Það væri heiður að taka við bandinu af Hrafnhildi og Rakel sem hefðu verið frábærir fyrirliðar.

Stelpurnar mæta Finnum í Vodafone-höllinni annað kvöld  klukkan 19.30. Ágúst hvetur áhorfendur til þess að fjölmenna og styðja við bakið á liðinu. Full ástæða er til að taka undir orð þjálfarans. Liðið mætir svo Slóvökum ytra á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×