Tónlist

Stofnuðu Félag íslenskra kvenna í tónlist

Védís Hervör, Ragnheiður Gröndal, Greta Salóme og Lára Rúnars eru í bráðabirgðastjórn félagsins.
Védís Hervör, Ragnheiður Gröndal, Greta Salóme og Lára Rúnars eru í bráðabirgðastjórn félagsins.
Stofnfundur Félags íslenskra kvenna í tónlist var haldinn á mánudagskvöld. Fimmtíu konur mættu á fundinn.

Í bráðabirgðastjórn eru Védís Hervör Árnadóttir, Ragnheiður Gröndal, Greta Salóme Stefánsdóttir og Lára Rúnarsdóttir. Fundurinn var haldinn í Hannesarholti við Grundarstíg, sem er nýr tónleikastaður fyrir um sjötíu áhorfendur. Aðalfundur verður haldinn í lok janúar. Þar verður kjörinn formaður og endanleg stjórn.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins varð félagið til í spjalli á Facebook fyrir jól. Stofnaður var Facebook-hópur og á örskömmum tíma er hann orðinn mjög fjölmennur og telur núna tæplega fimm hundruð konur.

Tilgangur félagsins er að skapa jákvæða umræðu, samstöðu og samstarfsvettvang meðal tónlistarkvenna sem eiga það sameiginlegt að starfa á Íslandi. Einnig skal staðið vörð um hagsmuni tónlistarkvenna á Íslandi og styrkja grasrót ungra tónlistarstúlkna. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að vakta kynjahlutfall í stjórnum og nefndum hinna ýmsu tónlistargreina og miðla er lúta að tónlist. Einnig með því að styrkja samstöðu meðal tónlistarkvenna og upplýsingaflæði þeirra á milli með samfélagsmiðlum á borð við Facebook.

Hugmyndir eru uppi um að fulltrúar frá Félagi íslenskra kvenna í tónlist heimsæki skólastelpur í grunnskólum landsins og ræði við þær um tónlistarlífið og hvetji þær til að taka sér hljóðfæri í hönd.

- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×