Körfubolti

Vinir fyrir lífstíð í Zaragoza

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Flottur á velli Landsliðsmaðurinn 31 árs er í lykilhlutverki hjá CAI Zaragoza.
Flottur á velli Landsliðsmaðurinn 31 árs er í lykilhlutverki hjá CAI Zaragoza. Mynd/Ramón Cortés www.caistas.net

Jón Arnór Stefánsson og félagar í CAI Zaragoza mæta stórliði Real Madrid í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum efstu deildar spænska körfuboltans í kvöld. Jón Arnór og félagar ætla að njóta augnabliksins.

„Við erum enn smærra liðið í þessu einvígi. Real Madrid er með hörkulið og möguleikar okkar eru litlir. Við ætlum ofar öllu að njóta þess að spila gegn þessu góða liði og gera okkar besta,“ segir Jón Arnór Stefánsson, leikmaður CAI Zaragoza.

Þriðjudagskvöldið verður lengi í minnum haft hjá Jóni Arnóri. Zaragoza vann dramatískan útisigur á liði Valencia í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum og tryggði sér óvænt sæti í undanúrslitum.

„Mér líður eins og ég hafi verið að vinna titil og tímabilið sé búið. Við þurfum einhvern veginn að koma okkur niður á jörðina fyrir leikinn gegn Real Madrid,“ sagði Jón Arnór í sigurvímu á þriðjudagskvöldið. Sigurinn var ekki síst sætur þar sem Jón Arnór spilaði á sínum tíma með liði Valencia.

„Þú getur rétt ímyndað þér. Það eru margar súrar minningar frá tímanum hjá Valencia en það er alltaf gaman að koma hingað og spila,“ segir Jón Arnór. Hann fer ekkert í felur með það að tíminn hjá Valencia hafi ekki verið sérstaklega skemmtilegur.

Er Jón Arnór besti varnarmaður liðsins?

Mikil keyrsla
Klár í slaginn Jón Arnór og félagar mæta Real Madrid í fyrstu tveimur leikjunum í höfuðborginni. Þrjá sigra þarf til að tryggja sér sæti í úrslitum.Mynd/Ramón Cortés www.caistas.net

Tímabilið hefur verið langt og strangt hjá Jóni Arnóri. Hann var við æfingar með íslenska landsliðinu síðastliðið sumar og fór í kjölfarið á kostum í Evrópukeppni landsliða.

„Þetta er búin að vera massakeyrsla. Ég fór beint úr landsliðsverkefninu hingað til Spánar,“ segir Jón Arnór.

Álagið var mikið og glímdi Jón Arnór við meiðsli frá jólum og fram í febrúar. Síðan þá hefur Zaragoza-liðinu gengið allt í haginn og Jón farið á kostum.

„Ég hef verið að spila vel eins og hinir,“ segir landsliðsmaðurinn, en tímabilið er sögulegt hjá félaginu.

Liðið komst í fyrsta skipti í úrslitakeppni átta bestu liðanna. Um leið varð liðið það fyrsta sem komst í undanúrslit í fyrstu atrennu í úrslitakeppni í 28 ár. Gleðin er því eðlilega mikil í borginni, sem átti síðast lið í undanúrslitum árið 1989. Það félag er ekki starfrækt í dag.

Jón Arnór í undanúrslitum í fimmta skipti.

Frábær andi í liðinu
Jón Arnór og félagar fögnuðu sigrinum í Valencia að vonum vel og innilega.Mynd/Twitter

Óalgengt er að atvinnumenn í fótbolta sem körfubolta bindist vinaböndum hjá liðum sínum. Samkeppnin er mikil um stöður og ekki eiga allir skap saman. Jón Arnór ber félögum sínum í liðinu afar vel söguna.

„Þú ert með leikmenn í hveri stöðu sem skila sínu í sókn sem vörn. Jafnvægið er til staðar og menn vega hver annan upp,“ segir Jón Arnór. Hann segir andann í liðinu jákvæðan og að menn trúi á verkefnin sem fyrir hendi eru.

„Ég er mjög heppinn að vera í kringum þessa stráka og fá að spila með þeim.“ Jóni Arnóri líður greinilega vel í Zaragoza, en hann á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið.

„Við erum allir mjög góðir vinir. Ég er að segja þér algjörlega satt og þetta er engin klisja,“ segir Jón Arnór og segir það mjög sjaldgæft í bransanum.

„Ég verð örugglega í sambandi við 75 prósent þeirra í framtíðinni. Það er frábær andi í klefanum sem skilar sér út á völlinn. Það sjá allir. Þetta hefur verið einstakt ár.“

Sportið á Vísi er á Facebook. Fylgstu með.


Tengdar fréttir

Jón Arnór og félagar í undanúrslit

Jón Arnór Stefánsson skoraði 13 stig fyrir CAI Zaragoza þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum spænska körfuboltans með 83-77 útisigri á Valencia.

Hægt að sjá Jón Arnór spila gegn Real Madrid

Ferðaskrifstofan Gaman Ferðir hefur ákveðið að bjóða upp á ferð til Madrid þar sem hægt verður að sjá Jón Arnór Stefánsson spila gegn Real Madrid um næstu helgi.

Það var allt brjálað í höllinni

"Þetta var yndislegt kvöld í alla staði. Þetta var hörkuleikur. Við vorum góðir frá byrjun og sterkari í lokin. Maður hafði einhvern veginn alltaf trú á því að við myndum taka þetta," sagði sigurreifur Jón Arnór Stefánsson í samtali við Vísi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×