Tónlist

Jakob Frímann notaði sumarfríið til að taka upp plötu og semja lag með Steed Lord

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Svala Björgvinsdóttir söngkona og Jakob Frímann Magnússon sömdu saman lag í Los Angeles í sumar fyrir sjónvarpsþáttinn Hljómskálann.
Svala Björgvinsdóttir söngkona og Jakob Frímann Magnússon sömdu saman lag í Los Angeles í sumar fyrir sjónvarpsþáttinn Hljómskálann.
Jakob Frímann Magnússon, Stuðmaður og miðborgarstjóri, dvaldi nýlega í Los Angeles við upptökur á nýrri plötu.

Platan var unnin undir stjórn upptökustjórans og gítarleikarans Pauls Brown, margverðlaunuðum tónlistarmanni, sem hefur meðal annars unnið með tónlistarmönnum á borð við George Benson, Patty Austin, Al Jarreau og Luther Vandross.



Tónlistin mun vera í anda ýmissa fyrri platna Jakobs sem komið hafa út í Bandaríkjunum, Asíu og Evrópu, frumsaminn, fönkskotinn, instrúmental djass.



Í ferðinni notaði hann einnig tækifærið og tók upp lag með hljómsveitinni Steed Lord fyrir Hljómskálann sem sýnt verður í þættinum í september.



Jakob Frímann er ekki ókunnugur borg englanna en þar bjó hann og starfaði um árabil, meðal annars fyrir bandaríska útgáfufyrirtækið Warner Brothers.



„Það var að áeggjan þeirra Hljómskálamanna að við Steed Lord tókum upp lag saman. Þeir vildu steypa þessum Los Angeles-staðsettu tónlistarmönnum saman. Afrakstur ferðarinnar verður lagður undir dóm hlustenda þegar þar að kemur,“ sagði Jakob, sem vildi ekki tjá sig um verkefnin að öðru leyti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×