Körfubolti

Járndómarinn Bavetta kominn með 2633 leiki í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Dick Bavetta er einn þekktasti körfuboltadómari heims en þessi 74 ára nagli hefur ekki misst af leik í 39 ár.

Bavetta hóf ferilinn árið 1975 og hefur ekki þurft að boða forföll síðan þá, hvorki vegna veikinda eða af öðrum ástæðum. Í gærkvöldi dæmdi hann sinn 2633. leik í röð.

„Þetta er ekkert sem ég hugsa um. Ætli ég hafi ekki fengið vinnusemina frá foreldrum mínum. Mér hefur ávallt fundist að maður eigi að fá sanngjörn laun fyrir sanngjarna vinnu,“ segir Bavetta.

„Það er svo kannski guðslukka að maður hafi ekki misst af leik vegna veðurs eða álíka ástæðum. Guð gaf mér líka góða heilsu,“ bætti hann við.

Hann hefur þó þurft að beita ýmsum brögðum til að komast tímanlega á leiðarenda, ef flugsamgöngur hafa til að mynda brugðist. Hann hefur ekki sett það fyrir sig að leigja bíl og keyra frá Toronto til Cleveland.

Vísir/Getty


„Það er bara innprentað í mann að maður eigi ekki að missa af leik. Mér hefur alltaf fundist að ég væri þá að trufla einhvern annan og fjöldskyldu viðkomandi ef ég þyrfti að afboða mig,“ sagði Bavetta.

Bavetta hefur dæmt alls 270 leiki í úrslitakeppni NBA-deildarinnar og 27 sinnum í lokaúrslitunum. Hann á þrjá stjörnuleiki að baki og dæmdi á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992.

Dómarar í NBA-deildinni dæma 82 leiki á ári en Bavetta telur að hann dæmi að jafnaði 12-15 leiki á mánuði. Hann gerir allar sínar ferðaáætlanir sjálfur og kemur sér á milli staða.

Ástæða þess að Bavetta var heiðraður í gær var að hann tók þar með fram úr Cal Ripken yngri sem spilaði 2632 leiki í röð á hafnaboltaferli sínum.

Vísir/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×