Körfubolti

Fyrsta tap Heat | Spurs mundar sópinn

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Tony Parker er óstöðvandi
Tony Parker er óstöðvandi vísir/afp
Tveir leikir voru í nótt í úrslitakeppni NBA körfuboltans í Bandaríkjunum. San Antonio Spurs skellti Portland Trail Blazers 118-103 og Brooklyn Nets lagði Miami Heat 104-90.

Þetta var fyrsta tap Heat í úrslitakeppninni í vor en liðið vann sex fyrstu leiki sína. Heat er 2-1 yfir í einvíginu en fjórði leikurinn verður í Brooklyn líkt og leikurinn í nótt.

Frábær hitni Nets lagði grunninn að sigrinum í nótt en liðið hitti úr 15 af 25 þriggja stiga skotum sínum. Liðið barðist líka af krafti og tók 43 fráköst gegn 27 fráköstum Heat.

Sex leikmenn Nets skoruðu 10 stig eða meira. Joe Johnson skoraði mest þeirra, 19 stig og Andray Blatche 15 af bekknum.

LeBron James og Dwyane Wade voru í sérflokki hjá Heat. James skoraði 28 stig og tók 8 fráköst. Wade skoraði 20 stig og stal 3 boltnum.

San Antonio Spus hefur ekki átt í vandræðum gegn Trail Blazers og er 3-0 yfir í einvíginu eftir öruggan sigur í nótt.

Spurs var 20 stigum yfir í hálfleik í nótt og var leikurinn í raun aldrei spennandi. Trail Blazers ræður ekkert við Tony Parker í vörninni auk þess sem varamenn liðsins eru varla þátttakendur í rimmunni, þeir skoruðu alls sex stig í nótt.

Tony Parker skoraði 29 stig í nótt og Tim Duncan 19 en fimm leikmenn skoruðu 10 stig eða meira.

Fjórir byrjunarliðsmenn Trail Blazers skoruðu yfir 20 stig hver og sá fimmti 13 stig. Wesley Matthews skoraði 22 stig, Damian Lillard og LaMarcus Aldridge 21 stig hvor og Nicolas Batum 20 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×