Handbolti

Magnaður sigur Flensburg í Meistaradeildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Enn og aftur varð Guðjón Valur Sigurðsson af Evrópumeistaratitlinum en Flensburg vann í dag Meistaradeild Evrópu eftir sigur á Kiel í úrslitaleik, 30-28.

Aron Pálmarsson var markahæsti leikmaður Kiel með sex mörk og spilaði vel, rétt eins og Guðjón Valur.

Kiel var yfir eftir góðan fyrri hálfleik, 16-14, en markvörðurinn Mattias Andersson var algjörlega magnaður í síðari hálfleik og hetja sinna manna.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar gáfu tóninn með frábærri byrjun og voru ekki langt frá því að stinga af strax á fyrsta stundarfjórðungi leiksins. Aron og Guðjón Valur voru báðir frábærir og skoruðu grimmt.

Mestur vaðr munurinn sex mörk eftir átján mínútna leik, 12-6, en þá tók Andersson til sinna ráða og byrjaði að verja hvert skotið á fætur öðru. Flensburg gekk á lagið og hélt svo uppteknum hætti í síðari hálfleik.

Á meðan allt virtist ganga upp fyrir Flensburg gekk allt á afturfótunum hjá Þýskalandsmeisturunum. Þeir létu Andersson koma sér úr jafnvægi og eftir að Flensburg komst yfir á 39. mínútu litu leikmenn liðsins aldrei um öxl.

Kiel náði þó að minnka muninn í eitt mark þegar þrjár mínútur voru eftir en nær komust lærisveinar Alfreðs ekki. Andreas Palicka kom inn á í mark Kiel en náði ekki að setja mark sitt á leikinn. Á meðan fór Andersson einfaldlega á kostum og varði eins og berserkur, oft úr dauðafærum.

Hornamennirnir Anders Eggert og Lasse Svan voru markahæstir í liði Flensburg og nýttu færin sín mjög vel. Holger Glandorf, þýska skyttan, reyndist einnig mikilvægur í síðari hálfleik og skoraði afar mikilvæg mörk.

Ólafur Gústafsson kom ekki við sögu hjá Flensburg í dag en stendur uppi sem Evrópumeistari. Guðjón Valur, sem hefur spilað í Meistaradeildinni undanfarin átta tímabil, þarf enn að bíða eftir sínum fyrsta titli.

Eftir leikinn var tilkynnt að Aron Pálmarsson hefði verið valinn besti leikmaður úrslitahelgarinnar sem fór fram í Köln í Þýskalandi að venju.


Tengdar fréttir

Íslendingaslagur í úrslitum

Úrslitin ráðast í Meistaradeild Evrópu í handbolta í dag. Fyrst mætast Barcelona og Veszprém í leiknum um þriðja sætið klukkan 13:15. Það er svo klukkan 16 sem úrslitaleikur Kiel og Flensburg hefst en allt er þetta í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.

Veszprém stendur í vegi fyrir Kiel

Íslendingaliðið Kiel verður í eldlínunni í dag í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta. Kiel mæti ungversku meisturunum í Veszprém í fyrri leik dagsins í Köln klukkan 13:15 í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.

Þrettán íslensk mörk og Kiel í úrslit

Kiel er komið í úrslit Meistaradeildar Evrópu í handbolta í þriðja sinn á fimm árum eftir 29-26 sigur á ungversku meisturunum í Veszprém í dag.

Þýskur úrslitaleikur í Köln

Flensburg mætir Kiel í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta eftir frækinn sigur á Barcelona eftir framlengdan leik og vítakastkeppni 41-39.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×