Körfubolti

Haukarnir unnu í spennuleik í Hólminum - skoruðu 10 síðustu stigin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emil Barja.
Emil Barja. Vísir/Valli
Haukarnir eru með fullt hús á toppi Dominos-deild karla í körfubolta eftir fimm stiga sigur á Snæfelli, 89-84, í Stykkishólmi í kvöld.

Haukarnir fylgdu eftir sannfærandi sigri á Grindavík í fyrstu umferðinni með því að vinna æsispennandi leik í Fjárhúsinu í Hólminum.

Haukar tryggðu sér sigurinn með því að skora tíu síðustu stigin í leiknum en Snæfellsliðið skoraði ekki síðustu tvær mínútur leiksins.

Alex Francis atkvæðamestur hjá Haukum með 30 stig og 15 fráköst en Kári Jónsson skoraði 20 stig og Emil Barja var með 18 stig og 7 stoðsendingar.

Sigurður Þorvaldsson átti stórleik hjá Snæfelli og skoraði 31 stig og tók 11 fráköst og Austin Magnus Bracey var með 16 stig. Willie Nelson skoraði síðan 14 stig og tók 14 fráköst.

Snæfellsliðið var með fimm stiga forskot, 84-79, þegar tvær mínútur voru eftir en þá komu tíu stig í röð frá Haukum sem lönduðu sigrinum með því að fá ekki á sig stig í síðustu 134 sekúndur leiksins.

Snæfell var 24-20 yfir eftir fyrsta leikhlutann og áfram með fjögurra stiga forskot í hálfleik, 47-43.

Haukarnir byrjuðu seinni hálfleikinn mjög vel, skoruðu 12 stig gegn 3 og tóku frumkvæðið. Haukar voru 65-63 yfir fyrir lokaleikhlutann en leikurinn var hnífjafn allan seinni hálfleikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×