Körfubolti

Hannes: Hinum þjóðunum leist ágætlega á að vera með Íslandi í riðli

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ. vísir/vilhelm
„Þetta er alveg rosalegur riðill, en að sama skapi er frábært að fá tækifæri til að mæta þessum stórþjóðum,“ segir Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, í samtali við Vísi um riðilinn sem Ísland verður í á Evrópumótinu í körfubolta í september á næsta ári.

„Þetta er alveg klárlega dauðariðilinn og verður auðvitað mjög erfitt. Sjálfar súpa hinar þjóðirnar hveljur yfir því að vera öll saman í þessum riðli. Þeim leist samt ágætlega á að vera með Íslandi í riðli.“

Þó róðurinn verði þungur í Berlín á næsta ári er Hannes eðlilega spenntur fyrir verkefninu og hann greinir mikinn áhuga hjá Íslendingum að fara til Berlínar í september á næsta ári.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir íslenskan körfubolta. Þetta verður körfuboltaveisla í heila viku. Það var áhugi á að fara út á mótið fyrir dráttinn og það að vera með þessum þjóðum í riðli mun bara auka áhugann,“ segir Hannes.

„Í heildina er þetta bara stór liður í því að gera körfuboltann heima betri. Á borðinu sem ég sat á voru allir helstu stjórnarmenn FIBA Europe og þeir óskuðu mér allir til hamingju með þessa sögulegu stund. Þetta verður mjög gaman, en auðvitað ætlum við að mæta þarna og gera okkar besta,“ segir Hannes S. Jónsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×