Handbolti

Arna Sif: Spiluðum miklu betur saman

Ingvi Þór Sæmundsson í Laugardalshöll skrifar
Arna Sif fagnar eftir leik.
Arna Sif fagnar eftir leik. vísir/ernir
Arna Sif Pálsdóttir var í stóru hlutverki þegar Ísland vann tíu marka sigur, 33-23, á Makedóníu í undankeppni HM 2015, en með sigrinum gulltryggði Ísland sér sæti í umspili um sæti á HM.

Arna sagði frammistöðuna í kvöld hafa verið þá bestu í undankeppninni.

"Já, ég myndi segja það. Það hefur verið góður stígandi í þessu hjá okkur.

"Við héldum áfram að spila góða vörn í kvöld og náðum að nýta okkur hraðaupphlaupin betur, sem vantaði svolítið í hinum leikjunum gegn Ítalíu.

"Það hafði einnig sitt að segja að við töpuðum færri boltum en á sunnudaginn.

"Við spiluðum miklu betur saman og fengum miklu meiri hraða í leik okkar sem kom sér vel gegn makedónska liðinu," sagði Arna sem var ánægð með einbeitingu sem íslenska liðið sýndi í kvöld, en liðið stóð stærstan hluta leiksins í vörn.

"Við vorum þolinmóðar og sýndum einbeitingu allan leikinn sem skilaði tíu marka sigri," sagði línumaðurinn sterki sem spilar með Århus í Danmörku.

En hvernig kemur Ísland til með að nálgast seinni leikinn gegn Makedóníu á laugardaginn?

"Ég held við munum nálgast hann eins og þennan leik. Við höldum áfram að einbeita okkur að vörninni og hraðaupphlaupunum.

"Auðvitað viljum við klára þennan leik og enda með fullt hús stiga í riðlinum og sýna að við eigum fullkomlega skilið að komast áfram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×