Handbolti

Stutt gaman hjá gestgjöfunum á EM í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrea Penezic.
Andrea Penezic. Vísir/AFP
Króatíska kvennalandsliðið í handbolta er á heimavelli á Evrópumótinu í ár en króatísku stelpurnar voru engu að síður úr leik eftir aðeins tvo leiki í riðlakeppninni.

Króatía tapaði naumlega í fyrstu tveimur leikjum sínum í riðlinum, 30-28 á móti Svíum og 26-24 á móti Þjóðverjum.

Króatíska liðið hefði átt að öllu eðlilegu að eiga enn möguleika að fara áfram í milliriðla enda komast þrjú af fjórum liðum upp úr riðlinum. Það voru hinsvegar úrslit úr hinum leik riðilsins sem lokuðu á þann möguleika.

Jafntefli Hollendinga og Svía sá til þess að Króatar geta aðeins náð Þjóðverjum að stigum og þar er þýska liðið alltaf ofar þökk sé sigrinum í innbyrðisleik liðanna.

Króatar mæta Hollandi í lokaleik sínum á morgun en það verður jafnframt þriðji og síðasti leikur liðsins á mótinu.

Þetta er sérstaklega svekkjandi fyrir stórstjörnu liðsins, Andrea Penezic, en það nægði liðinu ekki að hún skoraði 19 mörk í tveimur fyrstu leikjunum þar af 13 af 24 mörkum liðsins á móti Þjóðverjum.

Það gengur mun betur hjá hinum gestgjöfunum í Ungverjalandi en þær ungversku tryggðu sér sæti í milliriðli með því að ná í þrjú af fjórum stigum í boði í fyrstu tveimur leikjum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×