Tónlist

Spila Skímó-syrpuna

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hljómsveitin Skítamórall kemur fram á Spot í kvöld eftir langt hlé.
Hljómsveitin Skítamórall kemur fram á Spot í kvöld eftir langt hlé. Fréttablaðið/Pjetur
„Það verður ótrúlega gaman að koma saman aftur,“ segir Arngrímur Fannar Haraldsson, gítarleikari Skítamórals, en sveitin kemur saman í kvöld. Langt er nú síðan hljómsveitin hélt dansleik á höfuðborgarsvæðinu og má því búast við að gamlir og nýir Skímóaðdáendur fjölmenni á Spot til að skemmta sér með drengjunum.

Skítamórall var um árabil vinsælasta hljómsveit landsins en hefur haft hægt um sig undanfarin ár en þó komið saman nokkrum sinnum á ári til að skemmta sér og öðrum.

„Við höfum verið saman í hljómsveit í um tuttugu ár en við höfum passað upp á spila ekki of oft né of sjaldan síðustu ár,“ og bætir við að það sé þessi gullni meðalvegur sem geri þetta svo skemmtilegt.

Sveitin hefur ekki gefið út nýtt efni í nokkur ár en hefur í hyggju að gefa út nýtt efni með hækkandi sól.

„Við tókum æfingarispu í október og nóvember og til varð nýtt efni,“ útskýrir Arngrímur. Þeir telja þó afar ólíklegt að nýtt efni verði flutt á Spot í kvöld.

Í dag skipa sveitina ásamt Arngrími þeir Gunnar Ólason söngvari og gítarleikari, Herbert Viðarsson bassaleikari, Jóhann Bachmann trommuleikari og Gunnar Þór Jónsson gítarleikari. Allir eru upprunalegir meðlimir í sveitinni fyrir utan Gunnar Þór.

Skítamórall mun leika öll sín vinsælustu lög og munu Ennþá, Farin, Myndir og öll hin Skímólögin hljóma ásamt syrpunni góðu sem lifað hefur lengi með hljómsveitinni.





„Við tökum nokkur cover-lög en þau eru sum hálfpartinn orðin að okkar lögum. Ætli svona 75 prósent af prógramminu séu ekki okkar eigin lög.“

Skímósyrpan hefur lengi verið talin einhver skemmtilegasta og best heppnaða lagasyrpa sem sett hefur verið saman af íslenskri hljómsveit.

„Gipsy Kings-syrpan er orðin okkar. Hún byrjar á syrpu með lögum með Gipsy Kings, svo bættum við vinsælum lögum við. Við höfum aldrei æft syrpuna og á böllum er hún aldrei nákvæmlega eins því stundum er bætt inn aukalögum. Við eigum það til að koma hver öðrum á óvart og koma með lag og þá elta hinir,“ segir Arngrímur.

Þeir leika syrpuna yfirleitt einungis einu sinni á hverjum dansleik.

„Fólk verður yfirleitt svekkt ef það missir af henni.“

Syrpan var tekin upp árið 1997 á gamla Gauk á Stöng og sett á plötuna Tjútt.

Dansleikurinn á Spot hefst á miðnætti og kostar 2.000 krónur inn.

„Við eigum einnig von á þjóðþekktum leynigesti og hvet ég fólk til að mæta snemma svo það missi nú ekki af neinu,“ segir Arngrímur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×