Tónlist

Stuðmenn sameina kynslóðirnar

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Stuðmenn Raghildur Gísladóttir og Egill Ólafsson í góðu stuði.
Stuðmenn Raghildur Gísladóttir og Egill Ólafsson í góðu stuði. mynd/daníel
„Þetta er algjör tilviljun, pilturinn kom fram í gegnum Borgarleikhúsið fyrir tónleika okkar. Hann er ákaflega hæfileikaríkur og er jafn vígur í söng, leik og dansi,“ segir Jakob Frímann Magnússon Stuðmaður. Umrædd lýsing á við um ellefu ára gamlan pilt að nafni Jóhann Jóhannsson, sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hann er dóttursonur Sæma Rokk.

„Sæmi Rokk dansaði með okkur árið 1976 á upphaflega Tívolítúrnum en nú ætlar dóttursonur hans, Jóhann, að koma fram á þessum tónleikum,“ útskýrir Jakob Frímann. Það er því gaman að sjá hvernig Stuðmenn hafa skemmt heilu kynslóðunum og hvernig næsta kynslóð kemur að sýningu sveitarinnar.

Stuðmenn slá eigið met í kvöld þegar þeirra lengsta törn á einum sólarhring í spilamennsku verður að veruleika. „Okkar fyrra met er frá árinu 1999 á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þegar við lékum frá klukkan 2.30 til 8.30. Nú er það 19.30 til 03.00,“ segir Jakob Frímann léttur í lundu.

Stuðmenn leggja Hörpu undir sig í dag og kvöld er þeir halda tvenna tónleika í Eldborgarsal Hörpu og þá fer fram Stuðmannaball í beinu framhaldi af seinni tónleikunum í Silfurbergi en sveitin hefur ekki komið fullskipuð fram á opinberum dansleik síðan árið 2005. Fyrir þá sem ekki eiga miða á tónleikana, fara örfáir miðar á dansleikinn eingöngu í sölu á hádegi á Harpa.is. Fyrri tónleikarnir hefjast klukkan 19.30 og seinni klukkan 22.30.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×