Körfubolti

Stórskytturnar sameinaðar - hafa skorað 1757 þrista saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Þór Gunnarsson og Páll Axel Vilbergsson.
Magnús Þór Gunnarsson og Páll Axel Vilbergsson. Vísir/Ernir
Magnús Þór Gunnarsson samdi í gær við Skallagrím og mun klára tímabilið með Borgnesingum í Domninos-deild karla í körfubolta. Með þessu sameinast tvær af bestu þriggja stiga skyttum úrvalsdeildar karla frá upphafi en fyrir hjá liðinu er Páll Axel Vilbergsson.

Páll Axel bætti met Guðjóns Skúlasonar í þriggja stiga körfum á síðustu leiktíð og fyrr í vetur varð hann sá fyrsti til að skora þúsund þrista í úrvalsdeildinni.

Magnús Þór er kominn upp fyrir Teit Örlygsson og er í 3. sætinu 217 þristum á eftir Guðjóni Skúlasyni.

Saman hafa þessir reynsluboltar alls skorað 1757 þrista í úrvalsdeild karla, Páll Axel 1009 þriggja stiga körfur í 391 leik en Magnús Þór 748 þriggja stiga körfur í 303 leikjum.

Það má bóka það að aldrei hafa leikmenn spilað saman í úrvalsdeild karla sem hafa skorað svona marga þriggja stiga körfur saman.

Þeir félagar eru ekki mikið að gefa eftir í langskotunum og hafa verið duglegir að smella þristunum niður í vetur. Páll Axel og Magnús Þór eru báðir meðal þeirra sem hafa skorað flesta þrista í leik.

Páll Axel er með 16 þrista í 6 leikjum eða 2,67 að meðaltali í leik en Magnús Þór setti niður 21 þrist í 9 leikjum með Grindavík eða 2,33 að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×