Körfubolti

"Gott að losna við Josh Smith" áhrifin virka vel í Detroit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Detroit Pistons fagna hér sigri í nótt.
Leikmenn Detroit Pistons fagna hér sigri í nótt. Vísir/AP
Detroit Pistons liðið fagnaði í nótt sínum sjötta sigri í röð þegar liðið vann 105-104 sigur á meisturum San Antonio Spurs í NBA-deildinni í körfubolta.

Detroit Pistons hefur þar með unnið alla sex leiki sína frá 22. desember eða síðan að liðið lét Josh Smith fara en hann var langlaunahæsti leikmaður liðsins.

Það eru liðin næstum því sex ár síðan að Pistons-liðið vann sex leiki í röð og liðið var aðeins búið að vinna 5 af 29 leikjum sínum á tímabilinu með Josh Smith innanborðs.

Josh Smith er þekktur fyrir slæmt skotval og lélega skotnýtingu en hann var með 13,1 stig að meðaltali í leik í leikjum sínum með Detroit í vetur. Josh Smith samdi við Houston Rockets eftir að Detroit lét hann fara.

Skotnýting Detroit-liðsins hefur batnað mjög mikið við það að losna við slæmu skotin hjá Josh Smith.

Liðið er með 107,8 stig í leik, 49 prósent skotnýtingu og 40 prósent þriggja stiga nýtingu í þessum sex leikjum en fyrir brottför Smith skoraði liðið 94,4 stig í leik, nýtti 41 prósent skota sinna og 33 prósent þriggja stiga skotanna.

Næsti leikur Detroit Pistons er á móti Dallas Mavericks sem hefur líka unnið sex leiki í röð.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×