Körfubolti

Hvernig gátu Grindvíkingar gleymt Craion? | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Craion.
Michael Craion. Vísir/Stefán
Strákarnir á Karfan.is hafa sett inn á Youtube myndband af sigurkörfu Michael Craion í Grindavík í gær. KR vann leikinn 73-71 á ótrúlega auðveldri sigurkörfu.

KR-ingar áttu innkast á hliðarlínunni þegar 1 sekúnda og 43 hundraðshlutar úr sekúndu eru eftir af leiknum. Það stefndi í framlengingu en KR-liðið átti möguleika á einu skoti í lokin.

Það mátti búast við að KR-ingar þyrftu að taka erfitt neyðarskot en ruglingur í Grindavíkurvörninni varð til þess að þeir skyldu Michael Craion, langstigahæsta leikmann KR í leiknum, galopinn undir körfunni.

Pavel Ermolinskij tók innkastið og fann Michael Craion sem skoraði auðveldlega. Darri Hilmarsson fékk reyndar skráða á sig stoðsendinguna sem Pavel átti að fá en það er þó hlaup frá Darra sem virðist riðla algjörlega dekkingunni hjá Grindvíkingum.

Darri tók ekki bara varnarmenn Grindavíkur úr sambandi heldur einnig þann sem tók tölfræðina í leiknum. Það átti náttúrulega enginn von á því að Craion endaði með boltann einn og yfirgefinn undir körfunni.

Michael Craion skoraði 28 stig í leiknum en þetta var ein af þrettán tveggja stiga körfum hans. Craion skoraði alla körfur sínar nema eina inn í teig eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af þessari lokakörfu leiksins og á henni má sjá að það er full ástæða að taka fyrir dekkingu manna í innköstum á næstu æfingum Grindavíkurliðsins.

Skot Michael Craion í leiknum í Grindavík í gær:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×