Körfubolti

Skoraði sautján stig á undir fjórum mínútum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefan Bonneau er algjör bomba í Dominos-deildinni.
Stefan Bonneau er algjör bomba í Dominos-deildinni. Vísir/Stefán
Stefan Bonneau hefur byrjað frábærlega með Njarðvíkurliðinu í Dominos-deild karla en kappinn skoraði 48 stig í sigri á nágrönnunum í Keflavík í gærkvöldi.

Þetta var annar 40 stiga leikur Stefan Bonneau í röð en eftir tap á móti toppliði KR í fyrsta leik hans hefur liðið unnið síðustu fjóra leiki sína þar af tvo þá síðustu á móti Tindastól og Keflavík.

Stefan Bonneau er ekkert lamb að leiks sér við þegar hann kemst í stuð og það sást vel í leiknum á móti Keflavík í gærkvöldi.

Stefan Bonneau skoraði þá 17 stig á innan við fjögurra mínútna kafla sem Njarðvíkurliðið vann 20-6 og breytti stöðunni úr 63-58 í 83-64. Eftir þennan sprett var leikurinn nánast búinn þrátt fyrir að það væru enn rúmar sjö mínútur eftir af honum.

Stefan Bonneau skoraði fimm þriggja stiga körfur á þessum þremur mínútum og 42 sekúndum en hann var hreinlega óstöðvandi í kringum leikhlutaskipti þriðja og fjórða leikhlutans, skoraði 8 stig á síðustu 1:12 í þriðja leikhluta og 9 stig á fyrstu 2:30 í fjórða leikhlutanum.

Njarðvíkingar voru í sjötta sæti deildarinnar eftir tapið á móti KR 8. janúar síðastliðinn en eru nú komnir upp í þriðja sæti eftir þessa fjóra sigra í röð.

Stefan Bonneau hefur skorað 37,0 stig að meðaltali en hann hefur alls skorað 23 þriggja stiga körfur í leikjunum fimm eða 4,6 að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×