Körfubolti

Hvernig getur þessi ekki verið Stjörnuleikmaður í NBA? | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Damian Lillard.
Damian Lillard. Vísir/EPA
Damian Lillard, bakvörður Portland Trail Blazers, mætti reiður til leiks í nótt og átti eina svakalega troðslu yfir einn af risunum í NBA-deildinni í körfubolta.

Utah Jazz miðherjinn Rudy Gobert er 218 sentímetrar á hæð og það eru fáir sem reyna að troða boltanum þegar hann stendur fyrir framan körfuna.

Damian Lillard, sem er 191 sentímetrar á hæð, var þó ekkert að hika og tróð boltanum yfir Gobert sem gat lítið gert þrátt fyrir að vera 27 sentímetrum hærri en bakvörðurinn snjalli.

Lillard sem hefur verið frábær með liði Portland Trail Blazers í vetur, var af einhverjum ástæðum ekki valinn í Stjörnuleik NBA-deildarinnar og kannski var þessi troðsla smá skilaboð til þeirra sem álíta sem svo að hann ekki eiga sætið skilið.

Damian Lillard var með 25 stig og 6 stoðsendingar í eins stigs sigri Portland Trail Blazers á Utah Jazz. Það má sjá troðslu hans hér fyrir neðan.

Lillard, sem er á sínu þriðja tímabili í deildinni, hefur hækkað meðalskor sitt öll tímabilin en hann er með 21,7 stig og 6,3 stoðsendingar að meðaltali í vetur.

Charles Barkley var ekki sáttur með það að Damian Lillard var ekki valinn í Stjörnuleik NBA-deildarinnar eins og sjá má hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×