Körfubolti

Helgi Rafn: Ekkert samræmi í þessu

Ingvi Þór Sæmundsson í DHL-höllinni skrifar
Darrell Lewis spilaði vel í kvöld.
Darrell Lewis spilaði vel í kvöld. vísir/andri marinó
Helgi Rafn Viggósson, fyrirliði Tindastóls, sagði erfitt að kyngja tapinu fyrir KR í undanúrslitum Powerade-bikarsins í kvöld.

"Það er strembið. Það var mjög undarlegt að tapa þessum leik því við áttum alveg séns á að taka hann," sagði Helgi en Stólarnir voru að elta KR allan leikinn og komust aldrei yfir þrátt fyrir fínan leik á köflum.

"Það hafði mikið að segja, í stöðunni 55-52 þegar við vorum á blússandi siglingu, að þá var leikurinn stöðvaður í 5-10 mínútur til að skoða einhvern þrist.

"Af hverju var það ekki skoðað þegar þeir voru stígandi út af undir körfunni? Það var ekkert samræmi í þessu," sagði Helgi en var hann ósáttur með dómgæsluna í kvöld?

"Þeir fengu að keyra mikið inn í vörnina og sóttu mikið af villum en ég ætla að kenna dómurunum um tapið. Þeir flautuðu okkur ekkert út úr leiknum.

"Við fengum þessar villur og spiluðum fast eins og við viljum gera," sagði Helgi sem segir bilið á milli Tindastóls og KR ekki vera mikið.

"Við erum ekkert langt frá þeim og núna er fjörið bara að byrja. Það var leiðinlegt að missa af þessum titli en það er einn stór eftir," sagði Helgi en ætla Stólarnir sér að vinna sjálfan Íslandsmeistaratitilinn?

"Við gerum allavega góða tilraun til þess og sýnum í hvað okkur býr."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×