Körfubolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: KR - Tindastóll 88-80 | Höllin bíður KR-inga

Ingvi Þór Sæmundsson í DHL-höllinni skrifar
Helgi Freyr Margeirsson og Darri Hilmarsson eigast við.
Helgi Freyr Margeirsson og Darri Hilmarsson eigast við. vísir/andri marino
KR tryggði sér sæti í úrslitaleik Powerade-bikarsins með átta stiga sigri, 88-80, á Tindastóli í DHL-höllinni í kvöld. Vesturbæingar mæta Stjörnunni í úrslitaleiknum í 21. febrúar og eiga þar möguleika á að vinna sinn 11. bikarmeistaratitil.

Andri Marinó Karlsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í DHL-höllinni í kvöld og tók myndirnar sem fylgja umfjölluninni.

Það var úrslitakeppnisbragur á leik liðanna í kvöld. Varnirnar voru sterkar, liðin spiluðu fast og leikmenn fengu ekkert gefins.

Þrátt fyrir að gestirnir frá Sauðárkróki hafi gefið allt sem þeir áttu í leikinn og spilað vel á köflum voru KR-ingar með yfirhöndina allan tímann og Stólarnir voru alltaf að elta Íslandsmeistaranna, en Tindastóll náði aldrei forystunni í leiknum.

KR leiddi með fjórum stigum, 21-17, að loknum 1. leikhluta. Darrell Flake bar sóknarleik gestanna uppi í upphafi leiks og skoraði átta stig í 1. leikhluta. Helgi Rafn Viggósson var einnig öflugur með fimm stig og fjórar stoðsendingar í leikhlutanum.

Michael Craion reynir skot í teignum hjá Stólunum.vísir/andri marinó
KR-ingar skoruðu fjögur fyrstu stig 2. leikhluta og komust átta stigum yfir, 25-17. Stólarnir voru hins vegar fljótir að svara fyrir sig og hleyptu heimamönnum ekki of langt fram úr sér.

Tindastóll minnkaði muninn í tvö stig, 34-32, eftir þrjú vítaskot frá Helga Frey Margeirssyni þegar þrjár og hálf mínúta voru eftir af hálfleiknum.

Þá kom frábær kafli hjá KR sem skoraði tíu stig í röð og komst tólf stigum yfir, 44-32. Helgi Freyr sá hins vegar til þess að munurinn var níu stig í hálfleik þegar hann setti niður ótrúlegt þriggja stiga skot um leið og hálfleiksflautið gall.

Helgi Freyr skoraði níu stig í fyrri hálfleik, einu minna en Flake sem skoraði aðeins tvö stig í 2. leikhluta og ekkert í seinni hálfleik. Tindastól vantaði einnig framlag frá Myron Dempsey en var varla þátttakandi í leiknum, spilaði aðeins í rúmar 20 mínútur og skoraði einungis fimm stig.

Craion og Pavel voru stigahæstir KR-inga í hálfleik með tíu stig hvor en Björn Kristjánsson kom næstur með sjö en hann var sérlega mikilvægur á þeim kafla þegar Pavel var utan vallar vegna villuvandræða. Björn skoraði alls tólf stig í leiknum og spilaði virkilega vel.

Pétur Rúnar Birgisson hefur sókn fyrir Tindastól.vísir/andri marinó
Það sama var uppi á teningnum í 3. leikhluta; KR-ingar leiddu og náðu nokkrum sinnum fínu forskoti en Stólarnir neituðu að gefast upp og héngu alltaf í skottinu á Íslandsmeisturunum.

Darrel Lewis fór mikinn í byrjun seinni hálfleiks og þegar 3. leikhluti var hálfnaður var búinn að jafna stigaskor sitt úr fyrri hálfleiknum (sjö stig). Hann var skoraði alls 18 stig og var stigahæstur gestanna í kvöld.

Stólarnir minnkuðu muninn í þrjú stig, 55-52, um miðbik 3. leikhluta. Þá varð hins vegar mikil töf á leiknum þegar dómarar og eftirlitsmenn fóru yfir upptöku af einni af þriggja stiga körfum Tindastóls.

Þetta hlé virtist slá gestina út af laginu; sóknarleikur þeirra hrökk aftur í baklás, KR-ingar skoruðu tíu stig gegn tveimur og náðu 11 stiga forystu, 65-54.

Tindastólsmenn náðu þó að minnka muninn í sjö stig, 67-60, fyrir fjórðungaskiptin og í fimm stig, 69-64, í byrjun 4. leikhluta. En nær komust þeir ekki.

Leikmenn KR, og þá sérstaklega Craion, fóru að keyra upp að körfunni í auknum mæli, sóttu villur á leikmenn Tindastóls og náðu sér í auðveld stig af vítalínunni. Alls sóttu KR-ingar 29 villur á leikmenn Tindastóls og skoruðu 31 stig af vítalínunni.

Stólarnir gerðu hvað þeir gátu til að jafna metin en KR-ingar áttu alltaf svör. Og svo fór að Vesturbæingar fögnuðu átta stiga sigri, 88-80, og um leið sæti í bikarúrslitaleiknum.

Craion átti frábæran leik í liði KR, skoraði 26 stig, tók 16 fráköst og sótti fjöldan allan af villum á leikmenn Tindastóls sem misstu fjóra leikmenn út af með fimm villur í leiknum.

Pavel átti einnig flottan leik með 19 stig og átta fráköst og þá skilaði Björn góðu dagsverki eins og áður sagði.

Lewis var, sem áður sagði, stigahæstur í liði gestanna með 18 stig en Ingvi Rafn Ingvarsson kom næstur með 13 stig, öll á síðustu sex mínútum leiksins þegar hann hélt vonum Tindastóls um sæti í úrslitaleiknum á lífi, nánast einn síns liðs.

Finnur Atli Magnússon í baráttunni í leiknum í kvöld.vísir/andri marinó
Finnur Freyr: Partíið heldur bara áfram

"Ég er virkilega ánægður með að vera kominn í úrslitaleikinn  og við erum einu skrefi nær því að ná einu af markmiðunum okkar.

"En það er ekkert áunnið ennþá og við þurfum að klára leiki í deildinni áður en við pælum í úrslitaleiknum," sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, eftir átta stiga sigur, 88-80, á Tindastóli í undanúrslitum Powerade-bikarsins.

Þótt KR hafi leitt allan leikinn voru Stólarnir aldrei langt undan og Íslandsmeistararnir þurftu að hafa mikið fyrir sigrinum. Finnur sagðist hafa búist erfiðum leik sem varð svo raunin.

"Þetta voru tvö lið sem vildu fara, og ætluðu sér, í Höllina og gerðu allt sem þau gátu til þess. Úr varð hörkuleikur og kannski urðu gæði leiksins undir í baráttunni.

"En þetta snýst bara um eitt og það er að vera með fleiri stig á töflunni þegar leikurinn er búinn," sagði Finnur sem hrósaði Michael Craion fyrir hans frammistöðu í kvöld.

"Við náðum að stoppa áhlaupin þeirra og þá sérstaklega Mike sem er ekki búinn að spila eins og hann gerði fyrir jól. En hann steig upp í kvöld og var oft á tíðum óstöðvandi.

"Við þurfum að nota hann meira og sérstaklega þegar við fengum ekki þetta venjulega framlag frá Helga (Má Magnússyni) og Darra (Hilmarssyni). Mike var virkilega sterkur í kvöld."

KR tapaði sínum fyrsta leik í vetur fyrir Tindastóli fyrir tæpum tveimur vikum en hafa síðan þá unnið stórsigur á Keflavík auk sigursins í kvöld. En er Finnur ánægður með hvernig hans menn hafa svarað tapleiknum fyrir norðan.

"Já, engin spurning. En við getum betur. Við erum ánægðir með sigrana og það var margt jákvætt í leiknum í kvöld en það er líka margt sem við verðum að gera miklu, miklu betur. En það er nóg eftir af tímabilinu og þetta partí heldur bara áfram," sagði Finnur að lokum.

Stuðningsmenn Stólanna voru flottir í kvöld.vísir/andri marinó
Helgi Rafn: Ekkert samræmi í þessu

Helgi Rafn Viggósson, fyrirliði Tindastóls, sagði að það væri erfitt að kyngja tapinu fyrir KR í undanúrslitum Powerade-bikarsins í kvöld.

"Það er strembið. Það var mjög undarlegt að tapa þessum leik því við áttum alveg séns á að taka hann," sagði Helgi en Stólarnir voru að elta KR allan leikinn og komust aldrei yfir þrátt fyrir fínan leik á köflum.

"Það hafði mikið að segja, í stöðunni 55-52 þegar við vorum á blússandi siglingu, að þá var leikurinn stöðvaður í 5-10 mínútur til að skoða einhvern þrist.

"Af hverju var það ekki skoðað þegar þeir voru stígandi út af undir körfunni? Það var ekkert samræmi í þessu," sagði Helgi en var hann ósáttur með dómgæsluna í kvöld?

"Þeir fengu að keyra mikið inn í vörnina og sóttu mikið af villum en ég ætla að kenna dómurunum um tapið. Þeir flautuðu okkur ekkert út úr leiknum.

"Við fengum þessar villur og spiluðum fast eins og við viljum gera," sagði Helgi sem segir bilið á milli Tindastóls og KR ekki vera mikið.

"Við erum ekkert langt frá þeim og núna er fjörið bara að byrja. Það var leiðinlegt að missa af þessum titli en það er einn stór eftir," sagði Helgi en ætla Stólarnir sér að vinna sjálfan Íslandsmeistaratitilinn?

"Við gerum allavega góða tilraun til þess og sýnum í hvað okkur býr."

KR-Tindastóll 88-80 (21-17, 23-18, 23-25, 21-20)

KR: Michael Craion 26/16 fráköst, Pavel Ermolinskij 19/8 fráköst, Björn Kristjánsson 12, Brynjar Þór Björnsson 12, Helgi Már Magnússon 7/6 fráköst, Finnur Atli Magnússon 6/9 fráköst, Darri Hilmarsson 4/7 fráköst, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 2.

Tindastóll: Darrel Keith Lewis 18, Ingvi Rafn Ingvarsson 13/4 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 12, Darrell Flake 10/6 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 9/7 fráköst/6 stoðsendingar, Pétur Rúnar Birgisson 9, Myron Dempsey 5/8 fráköst, Svavar Atli Birgisson 4/4 fráköst.

Leiklýsing: KR - Tindastóll

Leik lokið | 88-80 | Átta stiga sigur KR staðreynd. Þeir eru á leið í úrslitaleikinn þar sem þeir mæta Stjörnunni.

40. mín | 84-78 | Helgi Freyr hittir ekki úr þriggja stiga skoti og Pavel tekur frákastið. Stólarnir senda Craion á vítalínuna.

40. mín | 84-78 | Endurtekið efni: Ingvi minnkar muninn en Dempsey brýtur á Finni Atla hinum megin. Hann setur annað vítið niður.

39. mín | 83-75 | Ingvi minnkar muninn í sex stig en Pavel svarar með því að setja niður tvö víti. Stólarnir þurfa að hætta að brjóta og gefa heimamönnum ódýr stig af vítalínunni.

39. mín | 81-73 | Ingvi setur niður og gerir þetta áhugavert. En Stólarnir þurfa meira.

37. mín | 80-70 | Finnur Atli setur niður tvö víti. Gestirnir eru búnir að fá 24 villur á móti 17 hjá heimamönnum. Stólarnir þurfa að koma með áhlaup og það sem fyrst ef þeir ætla að vinna þennan leik.

35. mín | 74-67 | Helgi Rafn brýtur á Brynjari og fær sína fimmtu villu. Brynjar setur bæði vítin niður. Hann er kominn með níu stig.

34. mín | 69-64 | Dempsey skorar aftur og Finnur tekur umsvifalaust leikhlé. KR er aðeins búið að skora tvö stig í 4. leikhluta. KR er að vinna frákastabaráttuna 38-34.

33. mín | 69-62 | Dempsey blakar boltanum ofan í og skorar sín fyrstu stig í leiknum. Tindastólsmenn þurfa meira framlag frá honum ef þeir ætla í Höllina.

31. mín | 69-60 | Craion kemur sér enn einu sinni á vítalínuna og setur bæði vítin niður. Hann er búinn að fiska 10 villur á leikmenn Tindastóls í kvöld.

Þriðja leikhluta lokið | 67-60 | Sjö stiga munur fyrir lokaleikhlutann.

29. mín | 63-54 | Björn setur niður þrist. Sá er að spila vel - kominn með 12 stig. Vörnin hjá KR er rosalega sterk þessar mínúturnar.

28. mín | 60-52 | Craion kemur sér á vítalínuna í annað skiptið á skömmum tíma. Setur annað vítið niður. Brynjar stelur boltanum í kjölfarið, skorar og fær síðan tæknivillu.

26. mín | 55-52 | Klukkan er loksins komin í lag eftir nokkura mínútna töf og það styttist í að leikurinn geti hafist.

26. mín | 55-52 | Stólarnir neita að gefast upp. Finnur tekur leikhlé eftir 10-3 sprett hjá gestunum. Lewis er kominn með sjö stig í seinni hálfleik, jafn mörg og hann gerði í þeim fyrri.

24. mín | 52-42 | 6-2 sprettur hjá KR og munurinn er kominn upp í tíu stig. Björn setti áðan niður sína fjórðu körfu. Hann sér til þess að Vesturbæingar sakni Pavels ekki of mikið.

23. mín | 46-40 | Pavel fær tæknivillu. Hann er þar með kominn með fjórar villur og fær sér umsvifalaust sæti á bekknum. Það verður áhugavert að sjá hvernig leikurinn þróast meðan hann er utan vallar. KR-ingar spiluðu allavega vel án Pavels í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur hafinn | 44-37 | Lewis skorar fyrstu stig seinni hálfleiks.

Fyrri hálfleik lokið | 44-35 | "Og-einn" frá Craion og kom KR tólf stigum yfir en Helgi Freyr minnkaði muninn í níu stig með ótrúlegri flautukörfu sem gæti reynst mikilvæg. Þetta voru fyrstu stig Stólanna í þrjár og hálfa mínútu. Craion og Pavel eru stigahæstir hjá KR með tíu stig hvor. Björn kemur næstur með sjö stig. Flake er kominn með 10 stig hjá gestunum en aðeins tvö þeirra komu í 2. leikhluta. Helgi Freyr er kominn með níu stig og Lewis sjö. Dempsey er hins vegar enn stigalaus og hefur aðeins spilað í tæpar sjö mínútur.

19. mín | 39-32 | Björn Kristjánsson með "og-einn" sókn. Hann er að skila fínu framlagi af bekknum og er kominn með sjö stig.

17. mín | 34-32 | Aftur brjóta KR-ingar á Helga Freyr í þriggja stiga skoti og aftur setur hann öll þrjú vitin niður. Öll hans sex stig hafa komið af vítalínunni. Pavel er kominn með þrjár villur og fer af velli.

15. mín | 32-29 | Lewis minnkar muninn í þrjú stig með sínum fyrsta þristi. Hann er kominn með sjö stig. Það er hins vegar áhyggjuefni fyrir Tindastól að Dempsey er ekki enn kominn á blað. Hann er utan vallar þessa stundina.

13. mín | 25-22 | Fimm stig í röð frá gestunum og Finnur tekur leikhlé. Þetta er svo fljótt að breytast.

12. mín | 25-17 | KR-ingar hafa skorað fjögur fyrstu stig 2. leikhluta. Bræðurnir Helgi og Finnur sáu um það.

Fyrsta leikhluta lokið | 21-17 | Sóknin hjá KR fór aftur í gang á lokakafla leikhlutans. Pavel er stigahæstur hjá heimamönnum með átta stig. Craion kemur næstur með fjögur stig og fjögur fráköst. Flake er kominn með átta stig í liði Tindastóls og þá er Helgi Rafn búinn að spila ljómandi vel með fimm stig, tvö fráköst og fjórar stoðsendingar. Stólarnir þurfa hins vegar að passa betur upp á boltann - þeir hafa tapað honum sjö sinnum á fyrstu 10 mínútum leiksins sem er alltof mikið.

8. mín | 13-13 | Gestirnir eru búnir að jafna með körfum frá Flake og Lewis. KR-ingum gengur illa í sókninni þessa stundina.

6. mín | 13-9 | Stólarnir tapa sínum fimmta bolta í leiknum og Craion refsar með hraðaupphlaupstroðslu. Gestirnir þurfa að virkja fleiri en Flake í sóknarleiknum. Hann er kominn með sex af níu stigum þeirra.

4. mín | 7-7 | Flake jafnar metin með þristi númer tvö hjá Stólunum. Helgi Rafn setti hinn niður.

2. mín | 3-0 | Pavel skorar fyrstu stig leiksins með skoti fyrir utan þriggja stiga línuna. Hann hefur hitt betur fyrir utan í vetur en oftast áður.

Leikur hafinn | 0-0 | Byrjunarliðin eru hefðbundin. Helgi, Brynjar, Darri, Craion og Pavel byrja hjá KR. Pétur, Flake, Lewis, Dempsey og Helgi Rafn hjá Tindastóli.

Fyrir leik: Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, hefur verið að gefa hinum 16 ára gamla Þóri Guðmundi Þorbjarnarsyni fleiri mínútur í síðustu leikjum. Og það er ekki hægt að segja annað en að strákurinn hafi staðið fyrir sínu. Þórir átti t.a.m. mjög flottan leik þegar KR vann ÍR í tvíframlengdum leik um daginn, en þar skoraði hann 15 stig, tók átta fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Það verður gaman að sjá hversu margar mínútur hann fær í þessum stórleik.

Fyrir leik: Það eru þeir Sigmundur Már Herbertsson, Jón Bender og Davíð Kristján Hreiðarsson sem sjá um dómgæsluna í leik kvöldsins.

Fyrir leik: Það er fullt hús hér í DHL-höllinni og von á mikilli stemmningu. Hópur af stuðningsmönnum Tindastóls voru mættir um klukkutíma fyrir leik og höfðu hátt. Hafa reyndar ekki svo hátt núna en þeir bæta væntanlega úr því þegar upphafsflautið gellur.

Fyrir leik: Sem kunnugt er er Tindastóll eina liðið sem hefur unnið KR í vetur. Það gerðu þeir fyrir tæpum tveimur vikum, 22. janúar, norðan heiða. Lokatölur 81-78 í hörkuleik. KR-liðið hitti afleitlega fyrir utan þriggja stiga línuna (17%) í þeim leik en þó ber að geta þess að Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR og þeirra helsta skytta, lék ekki með Vesturbæingum í leiknum.

Fyrir leik: Stólarnir bíða enn eftir sínum fyrsta bikarmeistaratitli en liðið hefur einu sinni komist í bikarúrslit. Það var árið 2012 þegar Tindastóll laut í lægra haldi fyrir Keflavík, 97-95. Þrír leikmenn eru enn eftir í herbúðum Stólanna frá þeim leik: fyrirliðinn Helgi Rafn Viggósson, nafni hans Freyr Margeirsson og Svavar Atli Birgisson.

Fyrir leik: KR hefur tíu sinnum orðið bikarmeistari, oftast allra liða. Síðasti bikarmeistaratitilinn kom í hús 2011 þegar KR-ingar unnu öruggan 22 stiga sigur á Grindvíkingum, 94-72. Þrír leikmenn KR sem eru í liðinu nú urðu bikarmeistarar fyrir fjórum árum: Brynjar Þór Björnsson, Pavel Ermolinskij og Finnur Atli Magnússon.

Fyrir leik: Á leið sinni í undanúrslit hafa KR-ingar rutt Hrunamönnum, Haukum B og Keflavík úr vegi. Tindastólsmenn hafa farið öllu erfiðari leið í undanúrslitin en þeir byrjuðu á því að leggja ÍG að velli í 32-liða úrslitunum, þá Grindavík og loks Snæfell.

Fyrir leik: Komiði sæl og blessuð. Hér verður leik KR og Tindastóls í undanúrslitum Powerade-bikarsins lýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×