Handbolti

Karabatic þakkar syni Patreks fyrir flott myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jóhannes Patreksson, sonur Patreks Jóhannessonar, þjálfara Hauka og austurríska landsliðsins í handbolta, er á góðri leið með að verða einn fremsti myndbandasmiður í handboltaheiminum.

Jóhannes er með Youtube-rásina IceHandball IH þar sem hann dælir inn handboltamyndböndum, og mörg hver gerir hann sjálfur.

Hann birti t.a.m. glæsilegt myndband af helstu tilþrifum Guðjóns Vals Sigurðssonar, landsliðsfyrirliða Íslands, á dögunum þar sem hann sýnir sínar bestu hliðar í búningi Barcelona.

Fyrir tveimur vikum birti hann myndband með helstu tilþrifum Nikola Karabatic, leikmanns Barcelona, sem er heims, Evrópu- og Ólympíumeistari með franska landsliðinu.

Karabatic er greinilega ánægður með störf Jóhannessonar því hann birtir myndbandið á Facebook-síðu sinni og skrifar: „Vil þakka Jóhannesi Patrekssyni, syni Patreks Jóhannessonar, fyrir þetta frábæra myndband!!“

Efst í fréttinni má sjá myndbandið af Karabatic en myndbandið af Guðjóni Val er hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×