Handbolti

Alfreð nælir í stórefnilegan Austurríkismann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bilyk í leik með Fivers í Austurríki árið 2012, þá á sextánda aldursári.
Bilyk í leik með Fivers í Austurríki árið 2012, þá á sextánda aldursári. Vísir/Getty
Hinn átján ára Nikola Bilyk hefur samið við stórlið Kiel, sem Alfreð Gíslason þjálfar.

Bilyk er Austurríkismaður og spilar undir stjórn Patreks Jóhannessonar í austurríska landsliðinu. Hann er á mála hjá Fivers Margareten í heimalandinu.

Bilyk mun ganga til liðs við Kiel í síðasta lagi árið 2017, er samningur hans við Fivers rennur út. „Ég ætla fyrst að klára stúdentsprófið og ætla að gera allt sem ég get til að ná þeim markmiðum sem ég hef sett mér með Fivers,“ sagði hann við fjölmiðla ytra.

„Ég hlaut mitt uppeldi hjá Fivers og ég vil vinna nokkra titla í viðbót með félaginu.“

Alfreð sagðist hæstánægður með fenginn og lýsir honum sem einni efnilegustu skyttu heimsins í dag. „Ég hef fylgst með honum í tvö ár og er ánægður með að hann valdi að taka næsta skref á sínum ferli hjá okkur,“ sagði Alfreð.

Bilyk er 1,98 m á hæð og spilar sem vinstri skytta. Hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik í mars síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×