Handbolti

Daníel Freyr náði ekki að sýna sig fyrir landsliðsþjálfaranum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daníel Freyr Andrésson.
Daníel Freyr Andrésson. Vísir/Valli
Lærisveinar Arons Kristjánssonar í KIF Kolding áttu ekki í miklum vandræðum á móti Sönderjysk Elite í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

KIF Kolding vann leikinn á endanum með ellefu marka mun, 30-19, og komst þar með aftur á sigurbraut eftir tap á móti GOG Svendborg fyrir fjórum dögum. KIF Kolding var 14-10  yfir í hálfleik.

Daníel Freyr Andrésson, varamarkvörður Sönderjysk Elite, kom inná í stöðunni 21-13 fyrir KIF Kolding en þá voru rúmar tuttugu mínútur eftir af leiknum.

Aðalmarkvörðurinn Anders Peterson varði aðeins 6 af 27 skotum sem komu á hann en Daníel Frey tókst aðeins að verja 2 af 11 skotum sem komu á hann.  

Kasper Irming Andersen var markahæstur hjá KIF Kolding með 8 mörk en sænska stórskyttan Kim Andersson lék með og var með 3 mörk og 4 stoðsendingar.

KIF Kolding hefur unnið 21 af 25 deildarleikjum sínum á tímabilinu og er áfram með öruggu forystu á toppi deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×