Körfubolti

Meiðsladraugurinn heldur áfram að ásækja Portland

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Portland má illa við því að missa Aldridge.
Portland má illa við því að missa Aldridge. vísir/afp
LaMarcus Aldridge, framherji Portland Trail Blazers, varð að fara af velli vegna meiðsla þegar liðið tapaði fyrir Memphis Grizzlies í toppslag í Vesturdeildinni í NBA í nótt.

Aldridge, sem er stigahæsti leikmaður Portland í vetur með 23,6 stig að meðaltali í leik, meiddist á vinstri hendi í fyrri hálfleik og kom af sökum ekkert við sögu í þeim seinni.

Óljóst er hversu lengi Aldridge verður frá en hann segist ætla að gefa sér góðan tíma til að jafna sig á meiðslunum.

„Læknarnir sögðu að þetta væri ekki brot, sem er ánægjulegt. Ég hélt það í fyrstu því sársaukinn var svo nístandi. En læknarnir ráðlögðu mér bara að hvíla mig sem er gott.

„Ég mun reyna að snúa sem fyrst aftur á völlinn en ætla þó að passa að fara ekki of snemma af stað,“ sagði Aldridge eftir leikinn gegn Memphis.

Meiðsladraugurinn hefur ásótt Portland að undanförnu en ekki er langt síðan Wesley Matthews sleit hásin. Þá gat Frakkinn Nicolas Batum ekki spilað seinni hálfleikinn gegn Memphis vegna bakmeiðsla.

Portland er í 4. sæti Vesturdeildarinnar en liðið hefur tapað fjórum leikjum í röð.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×