Körfubolti

Drekarnir komnir í 2-0 forystu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jakob og félagar í Sundsvall eru í góðri stöðu.
Jakob og félagar í Sundsvall eru í góðri stöðu. Vísir/Valli
Sundsvall Dragons er í góðri stöðu í rimmu sinni í 8-liða úrslitum úrslitakeppni sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta eftir sigur á LF Basket á heimavelli í kvöld, 94-77.

Sundsvall, sem endaði í 5. sæti deildarinnar, er þar með komið með 2-0 forystu í rimmunni og þarf einn sigur til viðbótar til að tryggja sér sæti í undanúrslitunum.

Jakob Sigurðarson skoraði sautján stig fyrir Drekana og var næststigahæsti leikmaður liðsins. Hlynur Bæringsson skoraði níu stig og tók tíu fráköst og Ægir Steinarsson skoraði fimm stig og gaf sex stoðsendingar.

Ragnar Nathanelsson er einnig á mála hjá Sundsvall en kom ekki við sögu í kvöld, líkt og í fyrsta leiknum í rimmunni.

Haukur Helgi Pálsson var í hópi stigahæstu leikmanna LF Basket en hann skoraði fjórtán stig á 37 mínútum, tók fimm fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Solna, lið Sigurðar Þorsteinssonar, er búið að jafna metin í sinni rimmu gegn Borås Basket eftir sigur í spennandi leik á heimavelli, 77-76.

Þetta var öflugur sigur fyrir Solna sem endaði í sjöunda sæti deildarinnar í vetur. Borås varð í öðru sæti og fékk 50 stig í deildinni, en Solna 30.

Sigurður Gunnar spiliaði í tæpar 20 mínútur í kvöld og skoraði níu stig og tók fjögur fráköst.

Staðan í 8-liða úrslitunum:

Södertälje Nässjö 2-0

Borås - Solna 1-1

Norrköping - Uppsala 1-1

LF Basket - Sundsvall 0-2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×