Íslenski boltinn

Juraj Grizelj fær loks leikheimild hjá KA

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Juraj Grizelj mun styrkja KA-liðið gríðarlega mikið.
Juraj Grizelj mun styrkja KA-liðið gríðarlega mikið. vísir/andri marinó
Króatíski miðjumaðurinn Juraj Grizelj, sem spilaði með Grindavík síðustu tvö sumur í 1. deild karla í fótbolta, fær loks leikheimild með KA í dag. Þetta hefur Vísir eftir heimildum.

Grizelj losaði sig undan samningi við Grindavík í byrjun árs og KA greindi svo frá því á heimasíðu sinni að félagið væri búið að semja við Króatann þann 14. febrúar.

Grizelj hefur verið einn albesti leikmaður 1. deildarinnar undanfarin ár, en hann skoraði 21 mark í 44 deildar- og bikarleik auk þess að leggja upp mikið af mörkum.

Þrátt fyrir að semja við KA um miðjan febrúar hefur Króatinn ekki enn fengið leikheimild með KA, en hann hefur misst af sex leikjum í Lengjubikarnum og ekki getað tekið þátt í undirbúningi norðanliðsins af krafti.

Hann verður þó klár í slaginn fyrir leik liðsins gegn KA í átta liða úrslitum Lengjubikarsins í Úlfarsárdalnum á morgun.

Grizelj var með samning við Grindavík út tímabilið 2015, en borgaði upp samninginn sinn hjá Suðurnesjaliðinu. Samkvæmt heimildum Vísis kostaði það Króatann 5.000 evrur eða 730.000 íslenskar krónur.

Hann ætlaði að reyna fyrir sér erlendis en þegar það tókst ekki og KA varð þess var samdi Akureyrarliðið við Grizelj.

Samkvæmt heimildum Vísis gekk KA-mönnum erfiðlega að fá Grindvíkinga til að skrifa undir félagaskiptin, en það dróst í tvo mánuði. Málið leystist svo á fundi liðanna með KSÍ í gær.

Grizelj ætti sem fyrr segir að vera kominn með leikheimild fyrir leik KA og Fylkis í átta liða úrslitum Lengjubikarsins á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×