Körfubolti

Ólafur Rafnsson sæmdur Heiðurskrossi KKÍ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Rafnsson.
Ólafur Rafnsson. Vísir/Valli
Ólafur Rafnsson, fyrrverandi formaður KKÍ, var sæmdur Heiðurskrossi KKÍ á Körfuknattleikþinginu 2015 sem stendur yfir í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.

Ólafur lést um aldur fram árið 2013 aðeins fimmtugur að aldri. Ólafur var forseti FIBA Europe er hann lést ásamt því að vera forseti ÍSÍ.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, afhenti Gerði Guðjónsdóttur eftirlifandi eiginkonu, Heiðurskrossinn núna rétt í þessu.

Ólafur er aðeins fimmti Heiðurskrosshafi KKÍ frá upphafi en aðrir sem hafa fengið þessa æðstu heiðursviðurkenningu KKÍ eru Bogi Þorsteinsson, Einar Bollason, Einar Ólafsson og Kolbeinn Pálsson.

Ólafur Rafnsson var leikmaður og þjálfari með Haukum í Hafnarfirði en hann varð Íslandsmeistari með Haukum árið 1988.

Ólafur var formaður KKÍ árin 1996 til 2006 áður en hann var kjörinn í embætti forseta ÍSÍ árið 2006. Árið 2010 var hann kjörinn forseti FIBA Europe.

Ólafur var giftur Gerði Guðjónsdóttur og áttu þau þrjú börn. Auði Írisi, Sigurð Eðvarð og Sigrúnu Björg.

Gerður Guðjónsdóttir, ekkja Ólafs ásamt börnum þeirra Auði Írisi, Sigurði Eðvarði og Sigrúnu Björgu. Með þeim á myndinni eru Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, og Guðbjörg Norðfjörð, varaformaður KKÍ.Mynd/KKÍ
Heiðurskross KKÍ.Mynd/KKÍ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×