Körfubolti

Úrslitaeinvígið í NBA hefst í nótt | Allir leikirnir í beinni á Stöð 2 Sport

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Golden State og Cleveland bítast um þennan bikar.
Golden State og Cleveland bítast um þennan bikar. vísir/getty
Úrslitin í NBA-körfuboltanum vestanhafs hefjast í nótt með fyrsta leik Golden State Warriors og Cleveland Cavaliers.

Leikurinn í nótt hefst klukkan 01:00 og er sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport eins og allir leikirnir í úrslitaeinvíginu.

Golden State var með bestan árangur allra liða í NBA í vetur en liðið vann 67 af 82 leikjum sínum í deildakeppninni.

Golden State, sem varð síðast NBA-meistari fyrir 40 árum, byrjaði á því að sópa New Orleans Hornets út 4-0 í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, sló svo Memphis Grizzlies út, 4-2, og loks Houston Rockets í fimm leikjum í úrslitum Vesturdeildarinnar.

Cleveland var hins vegar í vandræðum framan af vetri en hefur vaxið mikið eftir því sem liðið hefur á tímabilið. Liðið hafnaði í 2. sæti Austurdeildarinnar og sló Brooklyn Nets, Chicago Bulls og Atlanta Hawks út á leið sinni í úrslitin.

Það verður svo að koma í ljós hvort LeBron James, sem er að keppa í úrslitum NBA fimmta árið í röð, takist að leiða Cleveland til meistaratitils en borgarbúar í Cleveland hafa beðið í 51 ár eftir titli í einum af fjóru stóru boltaíþróttunum í Bandaríkjunum (NBA, NFL, NHL og MLB).

Úrslitaeinvígi Golden State og Cleveland (allir leikirnir eru í beinni á Stöð 2 Sport):

Leikur 1: 5. júní klukkan 01:00

Leikur 2: 8. júní klukkan 00:00

Leikur 3: 10. júní klukkan 01:00

Leikur 4: 12. júní klukkan 01:00

Leikur 5: 14. júní klukkan 00:00

Leikur 6: 16. júní klukkan 01:00

Leikur 7: 19. júní klukkan 01:00

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×