Íslenski boltinn

Garðar óttast slæm meiðsli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Valli
Sóknarmaðurinn Garðar Jóhannsson þurfti að fara meiddur af velli í leik Stjörnunnar og Leiknis í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar í gær.

Stjarnan vann leikinn í vítaspyrnukeppni en þurfti að leika manni færri í framlengingunni þar sem að Garðar meiddist í lok venjulegs leiktíma. Rúnar Páll Sigmundsson var þá búinn að nota allar þrjár skiptingar Stjörnumanna.

„Ég datt bara illa á mjöðmina og fann smell í náranum. Ég veit meira eftir myndatökuna sem ég er nú að bíða eftir,“ sagði Garðar í samtali við Vísi í dag en hann var þá í biðstofunni á leið í læknisskoðun.

„Ég óttast að þetta sé eitthvað slæmt en ég verð bara að vona það besta,“ sagði Garðar og bætti því við að hann hefði átt að fá víti í gær því það hafi verið brotið á honum í umræddu atviki.

„Ég var togaður niður og við það datt ég svona illa. En ég er ekkert að spá í því í dag,“ sagði hann.

Garðar lá nokkuð lengi á sjúkrabörunum en var þó staðinn upp í leikslok. „Sjúkraþjálfarinn vildi ekki leyfa mér að standa upp strax þar sem hann óttaðist að mjaðmakúlan hefði farið úr lið. Ég gat heldur ekki hreyft löppina fyrst um sinn.“

Garðar kom inn á sem varamaður um miðjan síðari hálfleik í gær og var nálægt því að skora skömmu síðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×