Körfubolti

Curry: Pabbi fær að upplifa þetta í gegnum mig | Sjáið Curry-fjölskylduna fagna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry með dóttur sína eftir að sigurinn var í höfn.
Stephen Curry með dóttur sína eftir að sigurinn var í höfn. Vísir/Getty
Stephen Curry, leikstjórnandi Golden State Warriors í NBA-deildinni í körfubolta, fagnaði sínum fyrsta NBA-meistaratitli í nótt með alla fjölskyldu sína í kringum sig en skömmu eftir að lokaflautið gall var Curry-fjölskyldan komin öll niður á gólf.

Stephen Curry átti frábæra úrslitakeppni en frammistaða hans í lokaúrslitunum, 26,0 stig og 6,2 stoðsendingar að meðaltali í leik, var þó ekki nóg til að tryggja honum verðlaunin sem besti leikmaður úrslitaeinvígisins því sú verðlaun fóru til Andre Iguodala.

Stephen Curry talaði vel um pabba sinn, Dell Curry, þegar hann var tekinn í viðtal eftir leikinn. Dell Curry var mikil þriggja stiga skytta í NBA-deildinni á sínum tíma.

„Ég er í fjölskyldu fyrirtækinu. Þessi sigur er fyrir alla fjölskylduna og þá sérstaklega pabba sem spilaði í sextán ár í þessari deild en náði aldrei að upplifa svona stund. Hann fær nú tækifæri að upplifa þetta í gegnum mig og allt liðið því hann er hluti af hópnum eins og við leikmennirnir," sagði Stephen Curry.

Enginn leikmaður Golden State Warriors hafði unnið NBA-titilinn fyrir þessa úrslitakeppni og Golden State liðið varð þar með það fyrsta síðan Chicago Bulls 1990-91 þar sem allir leikmenn verða NBA-meistarar í fyrsta skipti á sama tíma.

Stephen Curry skoraði alls 98 þriggja stiga körfur í úrslitakeppninni í ár og bætti gamla metið um 40 körfur en það átti Reggie Miller.

Stephen Curry faðmaði eiginkonu sína og tveggja ára dótturina Riley áður en hann faðmaði móður sína, systur, föður og bróður. Þetta var hjartnæm stund eins og sést hér í myndbandinu fyrir neðan.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×