Körfubolti

Andre Iguodala einstakur meðal þeirra sem hafa verið kosnir bestir | Myndbönd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Iguodala og Stephen Curry kyssa hér bikarinn.
Andre Iguodala og Stephen Curry kyssa hér bikarinn. Vísir/Getty
Andre Iguodala, leikmaður Golden State Warriors, var í nótt kosinn besti leikmaður NBA-lokaúrslita í ár eftir að Golden State tryggði sér titilinn með því að vinna Cleveland Cavaliers í sjötta leik liðanna.

Andre Iguodala skrifaði söguna með því að fá þessi verðlaun því aldrei áður hefur leikmaður fengið þau sem hefur ekki verið í byrjunarliðinu í öllum leikjum lokaúrslitanna.

Þetta var líka í fyrsta sinn frá 1980 (Kareem Abdul-Jabbar og Magic Johnson) þar sem liðsfélagar skipta með sér verðlaunum sem besti leikmaður deildarkeppninnar (Stephen Curry) og besti leikmaður úrslitanna.

Andre Iguodala kom inn í byrjunarliðið í leik fjögur eftir að Golden State Warriors liðið var komið 2-1 undir í úrslitaeinvíginu og næsti leikur var á heimavelli Cleveland.

Andre Iguodala byrjaði 758 fyrstu leiki sína í NBA en sætti sig við að koma inn af bekknum þegar Steve Kerr tók við liði Golden State Warriors síðasta haust. Hann komst síðan ekki í byrjunarliðið fyrr en í leik fjögur þegar Kerr skipti um leikstíl og fór að spila með mun lávaxnara lið.

Eitt aðalverkefni Andre Iguodala var að reyna að hægja á LeBron James alveg eins og hlutverkið var hjá San Antonio Spurs manninum Kawhi Leonard sem var kosinn bestur í fyrra. James hitti aðeins úr 38 prósent skota sinna í úrslitaeinvíginu og virtist vera alveg útkeyrður í lokaleiknum.

Andre Iguodala var með 16,3 stig, 5,8 fráköst og 4,0 stoðsendingar að meðaltali í lokaúrslitunum en hann var með yfir 20 stig að meðaltali í síðustu þremur leikjunum sem Goldan State vann alla og þá var hann með 25 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar í síðasta leiknum í nótt.

„Hann var frábær í allri seríunni en það var hann sem bjargaði tímabilinu fyrir okkur. Ég segi alltaf að Andre er fagmaður fagmannanna. Hann er mjög  „pró“  í öllu og það sést. Þess vegna er hann bestur og þessa vegna erum við meistarar," sagði Draymond Green.

„Ég var bara að spila minn leik. Ef maður finnur sig þá lætur maður bara vaða á körfuna. Ef ég tel að ég geti komið öðrum í betra færi þá geri ég það," sagði Andre Iguodala.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×