Körfubolti

Brasilíumaðurinn Barbosa áfram hjá meisturum Golden State

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Barbosa átti góða spretti með Golden State í vetur.
Barbosa átti góða spretti með Golden State í vetur. vísir/getty
NBA-meistarar Golden State Warriors hafa samið aftur við Brasilíumanninn Leandro Barbosa.

Lengd samningsins hefur ekki verið gefin út en hann mun gefa Barbosa 2,5 milljónir dollara í aðra hönd.

Barbosa, sem er 32 ára, gekk til liðs við Golden State fyrir síðasta tímabil og skilaði 7,1 stigi að meðaltali í leik í deildarkeppninni. Í úrslitakeppninni var hann með 5,0 stig að meðaltali í leik en Golden State varð meistari í fyrsta sinn í 40 ár eftir sigur á Cleveland Cavaliers í úrslitaeinvíginu.

Steve Kerr, þjálfari Golden State, þekkir vel til Barbosa en hann lék með Phoenix Suns þegar Kerr gegndi starfi stjórnarformanns þar.

Barbosa lék með Phoenix í átta tímabil og á þeim tíma var hann með 12,4 stig, 2,3 fráköst og 2,6 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann var valinn sjötti leikmaður ársins í NBA árið 2007.

Barbosa hefur farið víða síðustu ár; leikið með Toronto Raptors, Indiana Pacers, Boston Celtics og aftur með Phoenix í NBA, auk þess sem hann hefur leikið í heimalandinu, Brasilíu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×