Körfubolti

Sacramento Kings ræður konu sem aðstoðarþjálfara

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Nancy Lieberman í Stjörnuleik NBA-deildarinnar 2010.
Nancy Lieberman í Stjörnuleik NBA-deildarinnar 2010. Vísir/Getty
Nancy Lieberman, ein af þekktustu körfuboltakonum Bandaríkjanna, var í dag ráðin sem aðstoðarþjálfari Sacramento Kings í NBA-deildinni. Fylgir hún því í spor Becky Hammonds sem síðasta sumar var fyrst kvenna ráðin sem aðstoðarþjálfari í NBA-deildinni.

Becky átti góðu gengi að fagna á síðasta tímabili sem leiddi til þess að hún stýrði hún liði San Antonio Spurs í sumardeildinni í ár. Er um að ræða sérstaka deild sem sett er upp fyrir liðin til þess að skoða nýliðana sem voru teknir í nýliðavalinu. Becky stýrði liðinu til sigurs og fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína á hliðarlínunni.

Ákvað Sacramento Kings að fylgja þessu eftir með að ráða Lieberman sem aðstoðarþjálfara og verður hún George Karl innan handar á næsta tímabili.

Er þetta ekki í fyrsta sinn sem Lieberman tekur að sér starf sem þjálfari karlaliðs en hún var ráðin sem aðalþjálfari Texas Legends í þróunardeild NBA-deildarinnar 2009, fyrst allra kvenna til þess að verða þjálfari hjá karlkyns atvinnumannaliði í körfubolta í Bandaríkjunum.

Lieberman sem er yngsti leikmaðurinn í sögu Ólympíuleikanna sem leikmaður körfuboltaliðs var valin í bandaríska landsliðið aðeins sautján ára gömul. Lék hún aðeins tvö tímabil í WNBA-deildinni, sitt fyrsta þegar hún var 39 árs með Phoenix Mercury en hún lék síðar einn leik með Detroit Shock ellefu árum síðar.

Hún var á sínum tíma valin inn í frægðarhöll körfuboltans fyrir áhrif sín á kvennakörfubolta í Bandaríkjunum og var hún síðar fyrsta konan sem valin var inn í frægðarhöll kvennkyns körfubolta í Bandaríkjunum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×