Handbolti

Þrjú mörk Tandra dugðu ekki til

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tandri Már skoraði þrjú mörk í kvöld.
Tandri Már skoraði þrjú mörk í kvöld. mynd/heimasíða ricoh
Tandri Már Konráðsson skoraði þrjú mörk fyrir Rioch sem tapaði með eins marks mun, 24-25, fyrir Redbergslids á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Ricoh hefur tapað öllum þremur leikjum sínum í deildinni til þessa en liðið er í næstneðsta sæti hennar.

Redbergslids leiddi með einu marki í hálfleik, 13-14, en heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og þegar átta mínútur voru búnar af honum var staðan 18-16, Ricoh í vil.

Gestunum tókst að jafna og við tók spennandi lokakafli þar sem Redbergslids var jafnan með forystuna. Tandra tókst að jafna metin í 24-24 þegar 25 sekúndur voru eftir en gestirnir tryggðu sér sigurinn með því að skora 25. markið á lokasekúndunni.

Magnús Óli Magnússon komst ekki á blað hjá Ricoh í kvöld.

Þá unnu lærisveinar Kristjáns Andréssonar í Guif Eskilstuna öruggan útisigur á Skövde, 17-25. Guif leiddi með 10 mörkum í hálfleik, 7-17, en liðið er í 6. sæti deildarinnar með fjögur stig eftir fjóra leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×