Golf

Ungur Argentínumaður sigraði á Frys.com

Grillo fagnaði vel og innilega þegar að úrslitin voru ljós.
Grillo fagnaði vel og innilega þegar að úrslitin voru ljós. Getty
Spennan á lokahring Frys.com mótsins var gríðarleg en rúmlega tíu kylfingar voru á einhverjum tímapunkti í forystu eða einu höggi frá henni á meðan að leik stóð.

Bandaríkjamaðurinn Brendan Steele hafði leitt mótið frá byrjun en hann stóðst alls ekki pressuna á lokahringnum sem hann lék á 76 höggum eða fjórum yfir pari en hann endaði að lokum í 17.sæti.

Það nýttu Kevin Na og nýliðinn Emiliano Grillo sér sem enduðu jafnir í efsta sæti samtals á 15 höggum undir pari en sá síðarnefndi var að leika í sínu fyrsta móti á PGA-mótaröðinni sem fullgildur meðlimur eftir að hafa sigrað lokaúrtökumótið um síðustu helgi.

Því þurfti að grípa til bráðabana þar sem Argentínumaðurinn Grillo hafði betur eftir að hafa fengið fugl á hina fallegu 18. holu á Silverado vellinum.

Fyrir sigurinn fékk Grillo rúmlega 130 milljónir í verðlaunafé sem er meira heldur en hann hafði unnið sér inn á öllum ferlinum til þessa en ásamt því fær hann þátttökurétt á mótaröð þeirra bestu næstu tvö árin.

Rory McIlroy var stærsta nafnið sem var með um helgina en hann lék hringina fjóra á níu höggum undir pari og endaði jafn í 26. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×