Körfubolti

Helena náði ekki þrennu en Haukakonur unnu samt stórt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Vísir/Vilhelm
Haukakonur héldu áfram sigurgöngu sinni í Domino´s deild kvenna í körfubolta í kvöld þegar þær unnu sannfærandi 35 stiga sigur á Hamarsliðinu, 84-49, í Schenkerhöllinni á Ásvöllum.

Helena Sverrisdóttir var búin að ná þrennu í þremur leikjum í röð en fjórða þrennan kom ekki í hús. Helena endaði með 14 stig, 11 fráköst, 5 stolna bolta og 4 stoðsendingar.

Helena var stigahæst hjá Haukaliðinu en Sólrún Inga Gísladóttir skoraði 12 stig og

Dýrfinna Arnardóttir var með 11 stig.

Haukaliðið stakk af strax í fyrsta leikhlutanum sem liðið vann 30-11. Haukakonur voru síðan með 27 stiga forskot í hálfleik, 49-22.

Hamarsliðið minnkaði aðeins muninn með góðum þriðja leikhluta (Hamar vann hann 22-15) en í fjórða leikhlutanum skildu aftur leiðir.

Haukaliðið hefur þar með unnið alla sex leiki sína í deildinni til þessa sem þýðir að þær eru búnar að vinna öll hin sex liðin í Domino´s deildinni.

Suriya McGuire var sú eina sem náði tveggja stafa tölu í stigum en hún endaði með 14 stig. Nína Jenný Kristjánsdóttir skoraði 9 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×