Fótbolti

Fyrsti sigur Liverpool í Evrópudeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordon Ibe fagnar hér sigurmarki sínu.
Jordon Ibe fagnar hér sigurmarki sínu. Vísir/Getty
Jordon Ibe tryggði Liverpool 1-0 sigur á Rubin Kazan þegar liðin mættust í Evrópudeildinni í Rússlandi í dag.

Þetta var fyrsti sigur Liverpool-liðsins í Evrópudeildinni á tímabilinu en liðið gerði jafntefli í þremur fyrstu leikjum sínum.

Liverpool var með algjöra yfirburði í leiknum fram að sigurmarki Jordon Ibe á 52. mínútu leiksins en það dró mjög af Liverpool-liðinu á lokakafla leiksins.

Heimamenn í Rubin Kazan ógnuðu Liverpool-liðinu aðeins í lokin en sigurinn var þó aldrei í mikilli hættu.

Liverpool hefur nú sex stig í öðru sæti riðilsins, tveimur stigum á eftir toppliði Sion og þremur stigum á undan franska liðinu Bordeaux sem missti leik sinn við Sion í kvöld niður í 1-1 janftefli í lokin.

Liverpool var miklu betra liðið í fyrri hálfleiknum en tókst ekki að koma boltanum í mark Rússanna.

James Milner fékk frábært færi strax á 6. mínútu eftir glæsilegan undirbúning Roberto Firmino en skot hans fór í slána og yfir.

Það þurfti síðan svaka tilþrif frá markverðinum Sergei Ryzhikov til að koma veg fyrir að varnarmaður Rubin Kazan skoraði sjálfsmark í uppbótartíma fyrri hálfleiksins.

Yfirburðirnir voru algjörir, Liverpool var 76 prósent með boltann í fyrri hálfleiknum og átti tólf skottilraunir að marki.

Pressa Liverpool bar loksins árangur á sjöundu mínútu seinni hálfleiks.

Jordon Ibe fékk þá boltann frá Roberto Firmino inn í svæðið fyrir framan vörnina, lék upp að teig og lagði boltann í hornið, í stöngina og inn.

Liverpool slakaði aðeins á í lokin en liðið spilaði vel í þessum leik og átti sigurinn svo sannarlega skilinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×