Fótbolti

Heimir: Vinnum áfram í grunninum en notum tækifærið og skoðum nýja menn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Hallgrímsson er með strákunum okkar í Póllandi.
Heimir Hallgrímsson er með strákunum okkar í Póllandi. vísir/ernir
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er komið til Póllands þar sem það mætir heimamönnum í vináttuleik á föstudaginn í Varsjá.

Pólska liðið er eins og það íslenska komið á EM, en í liðinu er heitasti framherji heims, Robert Lewandowski, sem var markahæsti leikmaður undankeppni Evrópumótsins.

Sjá einnig:Landsliðshópurinn skiptist í tvo hópa

Þetta er fyrsti æfingaleikur íslenska liðsins fram að EM sem hefst í júní á næsta ári og voru fjórir nýliðar valdir í hópinn. Hópurinn hefur verið mjög svipaður alla undankeppnina en nú gefst Lars og Heimi tækifæri til að skoða aðra menn.

vísir/ernir
Horfum inn í framtíðina

„[Við] ætlum við að nota þessa leiki til að vinna áfram í grunninum, en í leiðinni að skoða nýja leikmenn, sem hafa verið minna, eða jafnvel ekkert verið með okkur,“ segir Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands, í viðtali á heimasíðu KSÍ.

„Við höfum verið fastheldnir á hópinn, og það hefur verið góður liðsandi. Við höfum verið að spila svo mikilvæga leiki og það hefur vegið þyngra að halda stöðugleika í þeim en að skoða nýja leikmenn. Núna er góður tími til þess.“

Markmiðið hjá hópnum er skýrt fyrir leikinn á föstudaginn og aftur á þriðjudaginn þegar liðið mætir Slóvakíu.

„Markmið númer eitt hjá okkur er alltaf að reyna að vinna leikina og finna okkar leið til þess. Hitt markmiðið með báðum þessum leikjum er að sjálfsögðu að skoða nýja leikmenn og sjá hvernig þeir virka í okkar umhverfi og í okkar leikkerfi,“ segir Heimir.  

„Þetta verkefni gefur okkur líka tækifæri til að horfa aðeins lengra inn í framtíðina, með því að skoða þessa leikmenn og sjá þá æfa og spila með sterkum samherjum,“ segir Heimir Hallgrímsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×