Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Snæfell - Þór Þ. 82-100 | Hall í stuði í þriðja sigri Þórs í röð

Símon B. Hjaltalín í Stykkishólmi skrifar
Vance Hall var sjóðheitur í Hólminum.
Vance Hall var sjóðheitur í Hólminum. vísir/stefán
Þór frá Þorlákshöfn unnu sanfærandi sigur á gestgjöfum sínum í Snæfelli 82-100 og nældu í 14. stigið sitt í deildinni og eru í 5. sæti með sama stigfjölda og sæti 3 og 4.

Snæfellingar sitja sem fyrr í 10. sæti deildarinnar með 8 stig og þurfa að þjappa sér saman fyrir seinni umferð deildarinnar.

Snæfellingar byrjuðu leikinn afleitlega á meðan Þórsarar byrjuðu hinsvegar sterkt varnarlega og komust í 2-10.

Vörn Þórs var þétt í upphafi og Snæfellingar voru ekki með miðið rétt stillt. Þegar heimamenn virtust ætla að sækja 10-15 þá gerðust þeir sekir um að rétta boltann í hendur gestanna sem gerðu fimm stig á fimm sekúndum og staðan 10-20 og eftir fyrsta fjórðung 17-30.

Sherrod Wright leikmaður Snæfells var þá kominn með 14 stig en þá vantaði sárlega fleiri að kjötkötlunum.

Snæfell gerðu sig líklega með að höggva á forskotið hægt og sígandi 30-36 en síðasta mínútan í fyrri hálfleik var Snæfelli ofviða og Þór leiddi í hálfleik 32-49.

Þórsara voru komnir í þægilega 20 stiga forystu 38-58 í þriðja leikhluta og Snæfellsmenn þurftu að eyða orku í að elta sem var þeim ekki hollt og gott miðað við að vera að hleypa gestunum í opin sniðskot upp miðjuna trekk í trekk í leiknum og gefa ótal opin skot.

Hjá Þórsurum var að sóknarleikurinn að rúlla mjög vel og leystu þeir vel öll varnatilbrigði Snæfells en heimamenn voru fastir í hælana og þungir í hreyfingum. Þórsarar áttu ekki vandræðum í seinni hálfleik og uppskáru sigurinn.

Breidd Þórs er að aukast með tilkomu Grétars Inga Erlendssonar aftur í liðið eftir meiðsli en hann skoraði 17 stig í leiknum og tók 5 fráköst og miðað við spilamennsku liðsins eru hlutirnir á uppleið hægt og bítandi en gaman var að sjá til liðsins í leiknum.

 Vance Michael Hall var atkvæðamestur hjá Þór með 37 stig og 10 fráköst. Ragnar Nathanaelsson var með 14 stig og 12 fráköst.

Snæfell þarf að slípa sig betur til og hafa nú jólfríið til að jafna sig á meiðslum og annað sem hrjáir liðið en hjá þeim var Sherrod Wright stighæstur með 29 stig og 10 fráköst. Honum næstur var Austin Magnús Bracey með 22 stig og 7 stoðsendingar.

Eins og áður sagði fara Þórsara sigurreifir inn í jólafríið úr Stykkishólmi og verður forvitnilegt að fylgjast báðum liðum eftir áramót.

Tölfræði leiks:

Snæfell-Þór Þ. 82-100 (17-30, 15-19, 20-23, 30-28)

Snæfell:
Sherrod Nigel Wright 29/10 fráköst, Austin Magnus Bracey 22/4 fráköst/7 stoðsendingar, Óskar Hjartarson 9, Viktor Marínó Alexandersson 6, Þorbergur Helgi Sæþórsson 6, Sigurður Á. Þorvaldsson 4/4 fráköst, Jón Páll Gunnarsson 2, Jóhann Kristófer Sævarsson 2, Stefán Karel Torfason 2/9 fráköst, Baldur Þorleifsson 0, Birkir Freyr Björgvinsson 0, Hafsteinn Helgi Davíðsson 0.

Þór Þ.:
Vance Michael Hall 37/10 fráköst/5 stoðsendingar, Grétar Ingi Erlendsson 17/5 fráköst, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 14/12 fráköst, Emil Karel Einarsson 13/7 fráköst, Ragnar Örn Bragason 9, Þorsteinn Már Ragnarsson 5, Halldór Garðar Hermannsson 3, Magnús Breki Þórðason 2, Baldur Þór Ragnarsson 0, Benjamín Þorri Benjamínsson 0.



Ingi Þór: Varnarvinnan var slök

„Þór er með mjög skemmtilegt lið, sprækir og vel spilandi,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, eftir tapið fyrir Þórsurum í kvöld.

„Varnavinnan hjá okkur í dag var slök og við vorum eftir á frá fyrstu mínútu og þeir skora á okkur þrjátíu stig í fyrsta leikhluta og búa sér til þægilega forystu.

„Við náðum þessum með góðri baráttu niður einhver sex stig sem ég var ánægður með en við vorum bara klaufar á þeim tíma líka og fegnum alltof mörg stig á okkur strax á eftir þessu á síðustu mínútum fyrri hálfleiks og þeir léku okkur grátt.

„Við vorum einfaldlega ekki nógu grimmir á varnarstöðunum okkar. Það er klárt að Grétar tekur pláss í teignum og það eru gæði þeim leikmanni og er greinilega koma sem góð viðbót við þetta lið,“ sagði Ingi ennfremur.

Þjálfarinn segir að Snæfell þurfi að þétta varnarleik sinn á nýju ári.

„Við þurfum að laga varnarleikinn okkar og það var líka gott að sjá Sigga hlaupa þennan leik sem er það mesta í þessum meiðslum og við þurfum að fá hann í betri æfingu og betra form því Siggi í formi er gulls ígildi.

„ Við erum þokkalega sáttir með að vera með átta stig sem stendur en við þurfum að safna fleiri stigum í sarpinn og þurfum að fara í alla leik með það í huga þar sem við erum mjög meðvitaðir um að við erum að berjast fyrir því að tryggja tilveru Snæfells í efstu deild.

„Við notum svo hátíðarnar vel til fara yfir okkar leik, hvílast, nærast og elskast,“ sagði Ingi að endingu.

Einar Árni: Gott að fá Grétar aftur út á gólfið

„Ég er sammála að því að þetta gekk vel upp í kvöld fyrir utan einhvern 3-4 mínútna kafla sem við slökuðum á eftir að hafa náð 10-2,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs, eftir leikinn í kvöld.

„Annars fannst mér við mjög flottir sóknarlega og líka mjög fínir varnarlega, 82 stig sem þeir setja og gef þeim það að það voru margir að setja mjög erfið skot eins og til dæmis Bracey sem var að setja niður mörg erfið skot á okkur ásamt fleiri strákum í Snæfelli sem voru að reyna að halda þessu þolanlega ef svo má segja en öruggur og góður sigur sem ég er ánægður með.

„Við vissum að við yrðum að mæta af krafti þar sem þeir höfðu ekki unnið síðstu tvo leiki, Siggi [Sigurður Þorvaldsson] að koma til baka og fleira en við höfum verið að hamra á því klefanum að við erum að hugsa fyrst og fremst um okkur og okkar plön í leikskipulagi sem mér fannst heilt yfir ganga bara mjög vel í dag,“ sagði Einar ennfremur.

Grétar Ingi Erlendsson sneri aftur í lið Þórs í kvöld og átti fínan leik.

„Það var mjög góð liðsvinna og gott að fá Grétar aftur út á gólfið. Hann kann þetta, 17 stig á 16 mínútum og er óvæntur liður í okkar leik. Við ætluðum ekki að spila honum fyrr en á nýju ári en það er búið að ganga vel í endurhæfingu og hann verið að æfa með okkur undafarnar vikur.

„Það gaman að fá þetta flug inn í jólafríið og nú þurfum við að byggja ofan á það og skemmtilegir tímar framundan,“ sagði Einar og bætti við:

„Við ætluðum okkur ekkert að toppa neitt strax og ætlum okkur jafnt og þétt að bæta í framhaldið.

„Mér finnst ákveðið lán í ólani líka að hafa verið að missa menn sem gefur öðrum leikmönnum tækifæri og þá kemur það niður á því að mér finnst ég hafa tíu leikmenn sem geta rúllað flott sem er mikilvægt þegar komið er inn í þéttan seinni hlutan þar sem við ætlum okkur berjast fyrir góðum stað í úrslitakeppninni.“

Bein lýsing: Snæfell - Þór Þ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×