Körfubolti

Nowitzki upp í 6. sætið á stigalistanum | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nowitzki er orðinn sjötti stigahæsti leikmaður í sögu NBA-deildarinnar.
Nowitzki er orðinn sjötti stigahæsti leikmaður í sögu NBA-deildarinnar. vísir/afp
Dirk Nowitzki, leikmaður Dallas Mavericks, lyfti sér í nótt upp í 6. sætið á listanum yfir stigahæstu leikmenn NBA-deildarinnar frá upphafi.

Nowitzki skoraði 22 stig þegar Dallas lagði Brooklyn Nets að velli í nótt, 118-119, en Þjóðverjinn fór upp fyrir Shaquille O'Neal á stigalistanum þegar hann setti niður stökkskot þegar 9:53 mínútur voru eftir af 2. leikhluta. Þessa sögulegu körfu má sjá hér að neðan.

Nowitzki, sem er á sínu 18. tímabili í NBA, hefur nú skorað 28.609 stig í þessari bestu körfuboltadeild í heimi.

Hann er næstefstur á listanum af þeim leikmönnum sem eru enn að spila en aðeins Kobe Bryant er ofar. Lakers-maðurinn hefur skorað 32.916 stig og situr í 3. sæti stigalistans.

Nowitzki, sem varð NBA-meistari 2011, er með 17,5 stig að meðaltali í leik í vetur en hann hefur aldrei, að nýliðaárinu sínu frátöldu, skorað minna en 17,3 stig að meðaltali í leik á tímabili.

Stigahæstu leikmenn í sögu NBA:

1. Kareem Abdul-Jabbar - 38.387

2. Karl Malone - 36.928

3. Kobe Bryant - 32.916

4. Michael Jordan - 32.292

5. Wilt Chamberlain - 31.419

6. Dirk Nowitzki - 28.609

7. Shaquille O'Neal - 28.596

8. Moses Malone - 27.409

9. Elvin Hayes - 27.313

10. Hakeem Olajuwon - 26.946

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×